Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Staðfestum smitum fjölgað áfram á Vestfjörðum

01.04.2020 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Staðfestum kórónuveirusmitum hefur farið fjölgandi á Vestfjörðum eftir því sem liðið hefur á daginn. Ákvörðun um strangara samkomubann var tekið í samráði við almannavarnir og sóttvarnalækni þar sem rökstuddur grunur er um fleiri smit.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa fimm skipverjar á Sirrý ÍS í Bolungarvík fengið staðfestingu á smiti í dag og fleiri bíða eftir niðurstöðum. Fimmtán skipverjar hafa verið í úrvinnslusóttkví frá því á mánudag vegna gruns um smit innan þeirra raða. 

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, staðfestir í samtali við fréttastofu í kvöld að smitum hefur fjölgað á svæðinu eftir því sem liðið hefur á daginn. Nánari tölur um fjölda smita verða teknar saman á stöðufundi aðgerðastjórnar almannavarnardeildar Vestfjarða í fyrramálið. Sex Vestfirðingar voru með staðfest smit í dag en ljóst er að þeim hefur fjölgað.

Síðdegis var tilkynnt um harðari aðgerðir vegna kórónuveirunnar á Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík. Samkomubann miðast nú við fimm manns og ákveðið hefur verið að loka leik- og grunnskólum nema fyrir forgangshópa. Aðgerðastjórn hélt fund með Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni, Ölmu Möller landlækni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni sídegis. Gylfi segi að þau, ásamt bæjaryfirvöldum á svæðinu, hafi verið sammála um að harðari aðgerðir væru rétt næstu skref.