Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ráðherra ákveður árskvóta Íslendinga í deilistofnum

01.04.2020 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Sjávarútvegsráðherra hefur tilkynnt veiðiheimildir Íslendinga í makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2020. Samtals verður heimilt að veiða rúm 488.000 tonn úr þessum þremur deilistofnum.

Ákvörðunin birtist nú fyrr en venjulega og er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áhrifum kórónuveirunnar á sjávarútveg og landbúnað. 

Leyfilegur heildarafli makríls verður rúmlega 152.000 tonn, sem er 16,5% af  heildarafla þeim sem ákveðinn er af Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðiráðinu (NEAFC). 

Aflaheimildir íslenskra skipa í kolmunna verði rúm 245.000 tonn, sem eru 21.1% af heildarveiði NEAFC. Úr norsk-íslenska síldarstofninum mega íslensk skip veiða 91.000 tonn, en það eru 17,36% af heildarafla NEAFC fyrir árið 2020.