Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mesta skjálftavirkni sem mælst hefur á Reykjanesi

Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir - RÚV
Frá upphafi árs hafa mælst rúmlega sex þúsund skjálftar á Reykjanesskaganum. Þetta er mesta jarðskjálftavirkni sem mælst hefur á Reykjanesskaga frá upphafi stafrænna mælinga árið 1991.

Land hefur risið um 7-8 sentímetra

Vísindaráð almannavarna fundaði fyrir helgi þar sem farið var yfir stöðu mála vegna landriss og jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaganum. Landris mælist nú á nýjan leik með miðju vestan við Þorbjörn. Landris mældist frá 22. janúar 2020 fram í byrjun febrúar og hóf svo að rísa aftur í fyrri hluta mars. Landrisið er þó hægara en áður. Samtals er risið um 7-8 cm frá því í lok janúar. Vísindaráð telur enn að líklegasta skýringin á landrisinu sé kvikuinnskot sem framkallar umtalsverða jarðskjálftavirkni á svæðinu norðan við Grindavík. 

Jarðskjálftar við niðurdælingarholu

Grindvíkingar hafa ekki farið varhluta af þessu. Skjálftahrina mældist til dæmis 19. mars við niðurdælingarholu þremur kílómetrum frá bænum. Ljóst er að spennubreyting í jarðskorpunni gerir það að verkum að jarðhitavökvi sem olli ekki teljandi skjálftavirkni áður er líklegri til að gera það nú. Verklag niðurdælingar verður því endurskoðað í samstarfi við HS Orku.

Mikil og útbreidd skjálftavirkni

Síðasta laugardag mældist jarðskjálftahrina við Eldey og má því segja að virknin mælist allt frá Eldey að Krýsuvík. „Töluverð óvissa ríkir enn um hvað veldur svo útbreiddri skjálftavirkni. En líklegt verður að teljast að eitthvað undirliggjandi ferli valdi því að svo stórt svæði verði allt virkt á svo stuttu tímabili,“ segir á vef almannavarna. 

Vísindaráð telur í ljósi þessarar miklu virkni nauðsynlegt að mæla og rannsaka núverandi virkni á Reykjanesskaganum heildstætt og bera hana saman við eldri atburði á svæðinu. Þannig megi varpa megi frekara ljósi á ástæður og þróun atburðarásarinnar sem nú er að eiga sér stað.