Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leggur til að 70 ára og eldri geti sótt um hlutabætur

Mynd með færslu
Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Mynd: RÚV
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður Velferðarnefndar Alþings, hefur lagt til við nefndina að svokallaðar hlutabætur verði einnig í boði fyrir fólk sem er eldra en 70 ára. Bæturnar eru fyrir fólk sem hefur misst starf sitt að hluta vegna efnahagsþrenginga sem rekja má til kórónuveirufaraldursins sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

Helga Vala greinir frá því í færslu á Facebook að athygli hennar hafi verið varkin að því að þessi ágalli væri á lögunum um hlutabætur. Þær hafi verið afgreiddar með hraði úr Velferðarnefnd og á Alþingi fyrir rúmri viku. 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landsambands eldri borgara, fagnar því að þessi breyting geti verið í farvatninu. Hún segir marga hafa haft samband vegna málsins og að fólki hafi brugðið mikið við að heyra að það hafi ekki rétt til þessa úrræðis. Það beri vott um aldursfordóma að úrræðið hafi ekki náð til þeirra sem eru eldri en 70 ára. 

Lög um atvinnuleysisbætur gilda um fólk á aldrinum 18 til 70 ára. Helga Vala kveðst vera bjartsýn á að þessu verði breytt hið fyrsta. Stjórnarandstaðan hafi lýst yfir stuðningi við breytingarnar. 

„Í meðferð okkar á þessu máli aftengdum við ákvæði varðandi námsmenn, sem alla jafna geta ekki sótt um atvinnuleysisbætur, en geta nú sótt um hlutabætur. Ég tel rétt að við tökum einnig tillit til þessa hóps eldri en 70 ára sem enn eru á vinnumarkaði og hef því sent póst á Velferðarnefnd og óskað eftir stuðningi við tillögu mína um breytingu á þessu ákvæði er varðar hlutabæturnar. Vonandi fæst samþykki meirihluta nefndarinnar fyrir þessu, enda skýrt réttlætismál að mínu mati,“ segir formaður Velferðarnefndar í færslunni. Ef samstaða næst telur hún að það ætti að vera hægt að afgreiða málið á þingfundum sem fyrirhugaðir eru á morgun og á mánudag.

26.000 umsóknir hafa borist hafa borist Vinnumálastofnun um úrræði vegna skerts starfshlutfalls frá því á miðvikudag. Þá var opnað fyrir umsóknir.