
Kosningum frestað vegna kórónuveirufaraldursins
Eþíópía er fyrsta ríkið sem frestar boðuðum kosningum vegna kórónuveirufaraldursins. Veiran hefur þó enn ekki náð mikilli útbreiðslu í landinu, innan við þrjátíu greinst með hana.
Abiy Ahmed, sem tók við embætti forsætisráðherra fyrir tveimur árum, hafði heitið landsmönnum kosningum 29. ágúst og var litið á þær sem prófstein á umbótastefnu hans. Skráning til þátttöku í kosningunum átti að hefjast síðar í þessum mánuði og formleg kosningabarátta í maí.
Síðan Abiy tók við völdum hefur hann lagt kapp á að lægja öldur milli þjóðarbrota í Eþíópíu og hefur sleppt þúsundum pólitískra fanga. Hann samdi frið við Erítreu og hefur tekið þátt í að miðla málum í Súdan og Suður-Súdan. Abiy hlaut friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári fyrir framgöngu sína.
Ekki eru allir sáttir við frestun kosninga, þannig sagðist Jawar Mohammed, helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hafa viljað vera með í ráðum. Þetta ætti ekki að vera einhliða ákvörðun stjórnarflokksins.