Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kosningum frestað vegna kórónuveirufaraldursins

01.04.2020 - 09:18
epa07667636 (FILE) Ethiopian Prime Minister Abiy Ahmed attends the Second Belt and Road Forum for International Cooperation (BRF) in Beijing, China, 27 April 2019 (Reissued 23 June 2019). Ethiopia?s Amhara state leader and his adviser were killed during a coup attempt in their state that was orchestrated by its top general, according to reports 23 June 2019.  EPA-EFE/ALEXEY NIKOLSKY / SPUTNIK / KREM / POOL MANDATORY CREDIT
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu. Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Stjórnvöld í Eþíópíu hafa ákveðið að fresta þingkosningum sem vera áttu í sumar vegna krórónuveirufaraldursins. Yfirkjörstjórn í Eþíópíu tilkynnti þetta í gær og sagði að ný dagsetning yrði tilkynnt þegar faraldurinn væri yfirstaðinn. 

Eþíópía er fyrsta ríkið sem frestar boðuðum kosningum vegna kórónuveirufaraldursins. Veiran hefur þó enn ekki náð mikilli útbreiðslu í landinu, innan við þrjátíu greinst með hana. 

Abiy Ahmed, sem tók við embætti forsætisráðherra fyrir tveimur árum, hafði heitið landsmönnum kosningum 29. ágúst og var litið á þær sem prófstein á umbótastefnu hans. Skráning til þátttöku í kosningunum átti að hefjast síðar í þessum mánuði og formleg kosningabarátta í maí.

Síðan Abiy tók við völdum hefur hann lagt kapp á að lægja öldur milli þjóðarbrota í Eþíópíu og hefur sleppt þúsundum pólitískra fanga. Hann samdi frið við Erítreu og hefur tekið þátt í að miðla málum í Súdan og Suður-Súdan. Abiy hlaut friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári fyrir framgöngu sína.

Ekki eru allir sáttir við frestun kosninga, þannig sagðist Jawar Mohammed, helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hafa viljað vera með í ráðum. Þetta ætti ekki að vera einhliða ákvörðun stjórnarflokksins.