Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fyrirhugaðar kosningar á Austurlandi afturkallaðar

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Kristján Þórisson - RÚV
Sveitarstjórnarkosningar í nýju sveitarfélagi á Austurlandi hafa verið afturkallaðar og hefja þarf undirbúning að nýju. Kjósa átti til sveitarstjórnar eftir tæpar þrjár vikur.

Búið var að staðfesta sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Fljótsdalshéraðs og Djúpavorshrepps, yfirkjörstjórn hafði verið skipuð og utankjörfundaratkvæðagreiðsla var hafin. Næsta skref var að framboðin myndu skila inn framboðslistum og meðmælendum með þeim. 

Þarf að byrja á öllu upp á nýtt

Staðfesting samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á sameiningunni stendur en Alþingi staðfesti í vikunni að afturkalla skyldi kosningar til nýrrar sveitarstjórnar. „Þá samþykkir Alþingi í rauninni lög sem fella úr gildi öll réttaráhrif þessarra kosninga, þannig að það þarf að byrja bara aftur, upp á nýtt,“ segir Róbert Ragnarsson, verkefnastjóri við sameininguna. „Við getum ekki gengið frá verkefnum sem við hefðum viljað ganga frá fyrir sumarleyfi. Og við þurfum þá að ganga frá þeim í haust.“

Utankjörfundaratkvæðin ógild

Einhverjir höfðu þegar greitt atkvæði utan kjörfunar og þau atkvæði eru ógild. Þá þarf að velja aftur í yfirkjörstjórn og tafir verða á því að hægt verði að staðfesa framboðslista. „Þau geta gert breytingar á listunum ef þau vilja, en þau geta látið listana standa eins og þeir eru. Það kemur þá bara í jós þegar nær dregur kjördegi,“ segir Róbert.

Óljóst hvenær hægt verður að kjósa

Undirbúningsstjórn sameiningarinnar þarf nú að tilnefna nýjan kjördag, en kjósa átti eftir tæpar þrjár vikur, eða 18. apríl. „Þau sjónarmið hafa heyrst; við fyrsta mögulega tækifæri, sem væri þá mögulega í lok ágúst. Eða þá í rauninni að láta sveitarfélagið taka gildi fyrsta janúar. En það verður að ráðast þegar faraldrinum lýkur hvaða tímasvigrúm við höfum þá,“ segir hann.