
Ekkert smit komið upp í fangelsum landsins
Allar heimsóknir í fangelsin hafa verið bannaðar frá sjötta mars, þegar almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi í landinu. Fangaflutningum var frestað og þeim veitt hlé á afplánun sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.
Fangaverðir hitamældir fyrir vakt
„Við tókum þetta mjög alvarlega og gripum til mikilla aðgerða alveg um leið. Allar ferðir inn og út úr fangelsinu voru stöðvaðar og fangavörðunum var skipt upp í nokkra litla hópa. Við gætum vel að öllu hreinlæti og fangaverðir eru hitamældir fyrir vakt,“ segir Páll.
Tæknin hefur hjálpað til við samskipti í fangelsunum eins og víða annars staðar. AA fundir fara fram á netinu sem og starf sálfræðings og félagsráðgjafa. Þá eru ákvarðanir dómstóla um framhald gæsluvarðhalds teknar í gegnum fjarfundabúnað.
Dagleyfi safnast upp
Páll segir að Fangelsismálastofnun sé í góðu samstarfi við Afstöðu - félag fanga um aðgerðir vegna Covid-19.
„Það eru til dæmis dagleyfi að safnast saman hjá einhverjum. Þegar þessu ástandi linnir munu fangarnir auðvitað fá þau réttindi sem þeir urðu af.“
Reglur um símtöl og netnotkun rýmkaðar
Það reynist föngum líkt og öðrum erfitt að hitta ekki sína nánustu vikum saman. Páll segir að reynt sé að létta líf þeirra eins og hægt er.
„Þetta er hrikalega erfitt fyrir þá og auðvitað krefjandi aðstæður fyrir bæði fanga og starfsmenn. Við gerum hvað við getum til að rýmka reglur eins og hægt er. Við bjóðum til dæmis upp á ókeypis símtöl og reglur um netnotkun eru rýmri en áður.“