Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Starfsmenn vöruhúsa hræddir um heilsu sína

31.03.2020 - 04:11
epa08332418 Amazon trailers parked at the Amazon Fulfillment Center in Springfield, Virginia, USA, 30 March 2020. Amazon is hiring 100,000 new warehouse and delivery workers to help the company fill orders as Americans stay at home during the COVID-19 coronavirus pandemic.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Starfsmenn stórra vöruhúsa kvarta sáran undan aðbúnaði sínum vegna kórónuveirufaraldursins sem herjar á heimsbyggðina. Starfsmenn hjá Amazon krefjast aukinnar verndar gegn smiti, og hafa hótað því að fara í verkfall til að fá sínu fram.

Viðskipti í gegnum netið hafa aukist hratt eftir COVID-19 faraldurinn. Fólk er beðið um að halda sig heima, og nota því fleiri tækifærið til þess að panta nauðsynjavörur, og aðrar vörur, á netinu. Amazon er sannkallaður netverslunarrisi, og hefur pöntunum þar fjölgað svo mjög að fyrirtækið vill ráða 100 þúsund starfsmenn til viðbótar í Bandaríkjunum. Starfsmenn hafa hins vegar kvartað undan því að þeir séu illa varðir fyrir smitsjúkdómum, og vilja að fyrirtækið bregðist við því. Nokkrir starfsmanna vöruhúss í New York gengu út af vinnustað sínum í gær til þess að mótmæla aðbúnaðinum. Myndband af mótmælunum var birt á Facebook.

Dave Lee, blaðamaður Financial Times, greinir frá því á Twitter að Amazon hafi rekið einn starfsmanna vöruhússins sem tók þátt í að skipuleggja mótmælin. Fyrirtækið sagði hann meðal annars hafa brotið gegn tilmælum um fjarlægðartakmörk og stefnt öryggi annarra í hættu. 

BBC hefur eftir talsmanni Amazon að þeir starfsmenn sem vilji ekki vera í vinnunni á þessum tímum megi taka sér leyfi frá vinnu, hvort sem þeir eiga inni launað leyfi eða ekki, og fyrirtækið styðji þær ákvarðanir. Jafnframt segir hann að fyrirtækið leggi hart að sér að halda vöruhúsum sínum hreinum. Eins séu starfsmenn aðstoðaðir við að gæta fyllstu varúðar, til að mynda með fjarlægðartakmörkunum og fleiru.

Starfsmenn Amazon í Frakklandi og á Ítalíu hafa farið í verkfall í mótmælaskyni, og mál var höfðað gegn fyrirtækinu á Spáni að sögn alþjóðasamtaka Verkalýðsfélaga. 

Svipaðar aðstæður í Asos

Í Bretlandi er svipaða sögu að segja af póstversluninni Asos. Í könnun bresku verkalýðshreyfingarinnar á aðbúnaði starfsmanna sögðust 98% svarenda vinnuumhverfi sitt óöruggt. Könnunin var gerð eftir að nýjum öryggisþáttum var bætt við í síðustu viku. Könnunin var gerð meðal starfsmanna vöruhúss í Barnsley. Þar eru um fjögur þúsund starfsmenn, þar af um fimm hundruð á hverri vakt. Margir þeirra sem svöruðu könnuninni sögðu ómögulegt að fylgja tveggja metra fjarlægðartilmælum í vöruhúsinu. Gangarnir eru þröngir og starfsmannaaðstaða of lítil til að anna því. Þá sögðu þeir að starfsmenn hafi ekki fengið nægar birgðir af hönskum og handspritti. 

Neitar alfarið ásökunum

Nokkrar verslunarkeðjur hafa lokað vefverslunum sínum af ótta við að geta ekki verndað starfsfólk í vöruhúsum. Asos þvertekur fyrir að reglur séu brotnar í sínum vöruhúsum. Guardian hefur eftir Nick Beighton, framkvæmdastjóra Asos, að ásakanir starfsmanna í Barnsley séu með öllu ósannar. Þær ali bara á ótta og geðshræringu á erifðum tímum. Hann sagði fyrirtækið vinna náið með verkalýðshreyfingunni og yfirvöldum í Barnsley. Unnið sé að því að halda vöruhúsinu gangandi, sem er bæði til hagsbóta fyrir starfsmenn og hagkerfið almennt. Þá passi fyrirtækið upp á heilsu og öryggi starfsfólks, sem sé í algjörum forgangi. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV