Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sex smit á Fljótsdalshéraði

31.03.2020 - 20:35
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Engin smit kórónuveiru hafa greinst á Austurlandi síðustu tvo daga. Sex staðfest smit eru á Austurlandi, öll á Fljótsdalshéraði. Enginn telst alvarlega veikur. Beðið er eftir niðurstöðum úr sýnum sem enn hefur ekki náðst að greina. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Lögreglunnar á Austurlandi.

198 eru í sóttkví á Austurlandi, 28 færri en í gær. Greinist smit í einhverju þeirra sýna sem þegar eru til rannsóknar má gera ráð fyrir að sú tala hækki en sóttkví er hins vegar að ljúka hjá mörgum flugfarþegum sem komu frá sýktum svæðis erlendis. 

Í tilkynningu lögreglunnar segir jafnframt íbúar hafi beint þeim tilmælum til aðgerðastjórnar að kynnt sé á Facebook í hvaða sveitarfélagi smit hafi greinst. Það hafi hingað til ekki verið gert í ljósi persónuverndar. Sú ákvörðun hafi nú verið endurskoðuð af sóttvarnarlækni og persónuverndarfulltrúa Landlæknis. Niðurstaðan hafi veriið sú að það séu hagsmunir almennings að fá sem bestar upplýsingar um stöðu mála hverju sinni og það sé hér með heimilt að birta upplýsingar um í hvaða sveitarfélagi smit greinist.