Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Pósturinn ætlar að dreifa matvöru í sveitir landsins

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Pósturinn undirbýr nú heimkeyrslu á matvöru og annarri dagvöru til heimila í sveitum landsins. Verkefnið hefst í Skagafirði á næstu dögum og er áfromað að hefja dreifingu á fleiri svæðum.

Elvar Bjarki Helgason, forstöðumaður söludeilar Póstsins, segir að fólk og verslanir hafi undanfarið spurst fyrir um möguleika þess að keyra matvöru til þeirra sem búa í sveitum. Eftirspurnin eftir slíkri dreifingu hafi almennt aukst að undanförnu.

Fyrstu sendingar til heimila í Skagafirði

Samstarf er nú hafið við Hlíðarkaup á Sauðárkróki og á næstunni hefst dreifing Póstsins á matvöru til heimila í sveitum í Skagafirði. Elvar segir að samningar við verslanir á fleiri landsvæðum séu í undirbúningi.

Segir bændur ekki vilja koma í búðina

Ásgeir Björgvin Einarsson, kaupmaður í Hlíðarkaupum, segir að bændur vilji eðlilega minnka öll samskipti út af sinni atvinnu. Með þessu viji hann koma til móts við það. „Við erum þegar farin að taka til pantanir í sveitina sem við setjum út í bíl og fólk sækir. Fólk vill ekki koma í búðina sem er vel skiljanlegt í þessum aðstæðum. Í samstarfinu við Póstinn sjáum við um að taka vörurnar til og gerum allt klárt fyrir flutning. Þeir sækja þetta svo og sjá alfarið um að rukka fyrir flutninginn.“

Heimsendingar á matvælum muni aukast

Í fréttatilkynningu frá Póstinum segir að sú staða geti komið upp að fólk verði fast heimavið í sveitum líkt og í þéttbýli og því sé mikilvægt að dagvara skili sér heim að dyrum. „Að því sögðu þá horfum við á þessa þjónustu til langs tíma, þó hún nýtist vissulega vel í dag munu heimsendingar á matvælum vaxa og verða enn mikilvægari þjónustuþáttur hjá okkur til framtíðar, bæði í þéttbýli og sveitum landsins,“ segir í tilkynningu Póstsins.