Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hringja í einsamalt eldra fólk

31.03.2020 - 23:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýtt verkefni á vegum Reykjavíkurborgar sem ber heitið Tölum saman gengur út á að hringt er í allt fólk 85 ára og eldri sem býr einsamalt og hefur fengið þjónustu frá borginni. Rætt verður við fólkið um líðan þeirra og aðstæður og því boðið að eignast „símaspjallvin" sem heldur því félagsskap næstu vikurnar. Ætlunin er að veita eldra fólki stuðning og draga úr félagslegri einangrun eldri borgara þegar samskipti og nánd eru skert vegna Covid-19.

Í fyrsta símtalinu, sem starfsfólk félagsmiðstöðva fullorðinna í Reykjavík hringir, verður fólki sagt frá verkefninu og frá sjálfboðaliðum í hverfinu.  Fólkinu verður svo boðið að sjálfboðaliði hafi samband símleiðis á næstu dögum og haldi því þannig félagsskap.

Símavinirnir koma frá Landssambandi eldri borgara og Félagi eldri borgara í Reykjavík en hægt er að leggja verkefninu lið með því að gerast símavinur. Hver símavinur fær fjögur til sex nöfn og símanúmer og hlutverk hans verður að veita þeim einstaklingum sem hann tengist félagslegan stuðning í formi símaspjalls næstu vikurnar. 

Hér eru upplýsingar um verkefnið og hvernig hægt er að skrá sig sem símavin.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV