Útlendingastofnun hefur ákveðið að breyta efnismeðferð og mati á umsóknum hælisleitenda og þeirra sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi út af útbreiðslu kórónuveirunnar.
Á undanförnum vikum hafa mörg Evrópuríki lokað landamærum sínum þannig að ekki er hægt að senda fólk til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Um 240 mál bíða nú úrvinnslu hér á landi og viðbúið er að mörg þeirra falli á tíma vegna þeirra ferðatakmarkana sem nú eru í gildi. Mál þeirra sem annars hefði átt að senda til Grikklands og Ítalíu verða tekin til efnismeðferðar og einnig lagt nýtt mat á aðstæður í þeim ríkjum sem orðið hafa hvað verst úti í faraldrinum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir í samtali við fréttastofu að það sé mikilvægt að bregðast skjótt við þeim aðstæðum sem nú eru uppi og eyða allri óvissu.