Það braut mörg evrópsk hjörtu, og þó víða væri leitað, þegar ljóst varð að ekkert yrði að Eurovision keppninni í ár maí vegna kórónuveirufaraldsins. Jafnvel enn sárara var fyrir Íslendinga að sætta sig við að Daði Freyr og Gagnamagn hans fengju ekki að keppa til úrslita með lagið Think About Things að ári liðnu en veðbankar höfðu spáð laginu einu af efstu sætunum og jafnvel fyrsta sigri Íslands. Aðdáendur keppninnar á Íslandi þurfa þó ekki að hætta við öll áform um að njóta Eurovision í maí því aðstandendur hafa tilkynnt að verið sé að vinna í þætti sem sýndur verður að kvöldi 16. maí, daginn sem keppnin átti að fara fram. Þar munu flytjendur ársins koma fram í Eurovision veislu og syngja lög sín og annarra og jafnvel taka þátt í samsöng. Verður flutningnum streymt frá hverju heimalandi fyrir sig.
Þátturinn kemur til með að heita Eurovision: Europe Shine A Light. Þó verður ekki um keppni að ræða og engin kosning fer fram svo við Íslendingar neyðumst til að setja vonir okkar um fyrsta sigurinn á ís í bili. Í þættinum sem verður um tveggja klukkustunda langur munu keppendurnir þó koma fram og flytja gamla góða Eurovision-smelli ásamt því að framlög frá hverju keppnislandi verða heiðruð. Frægar Eurovision-kempur munu einnig stíga á stokk og óvæntum uppákomum er lofað en frekari upplýsinga um þáttinn er að vænta á næstu vikum samkvæmt yfirlýsingu EBU.