Banna Áströlum að hamstra áfengi

31.03.2020 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Vínhneigðum Áströlum hefur verið bannað að kaupa meira en tólf vínflöskur og tvo kassa af bjór á dag. Áfengissala hefur stóraukist að undanförnu, eftir að stjórnvöld fyrirskipuðu að öllum fyrirtækjum skyldi lokað vegna COVID-19 farsóttarinnar nema þeim sem þyrftu bráðnauðsynlega að hafa opið. Barir og knæpur eru ekki þeirra á meðal.

Á samfélagsmiðlum í Ástralíu hafa birst myndir af fólki sem hefur troðfyllt innkaupakerrur af áfengi vegna ótta við að birgðir verslana gangi til þurrðar. Að sögn talsmanns samtaka drykkjarvöruverslana er engin ástæða til að óttast.

Samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá árinu 2016 drekkur hver Ástrali eldri en fimmtán ára 12,6 lítra af hreinum vínanda á ári að meðaltali. Einungis Tékkar drekka meira.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi