14% atvinnuleysi - óttast frekari uppsagnir strax í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Atvinnuleysi í Reykjanesbæ er komið um eða yfir 14%. Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri. Isavia sagði í gær rúmlega hundrað manns upp störfum, vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á flugsamgöngur. Flestar uppsagnirnar eru á Keflavíkurflugvelli. Um tíu þúsund manns hafa unnið á flugvellinum þangað til núna í mars, en fjölmargir hafa misst vinnu sína að hluta eða öllu leyti á undanförnum dögum og vikum. Kjartan Már óttast fleiri slæmar fréttir strax í dag.

„Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysi núna rétt tæplega 14% og sennilega komið yfir það eftir uppsagnir gærdagsins. En rétt fyrir helgi voru tölurnar komnar í 13,6%. Og það má því miður gera ráð fyrir frekari fregnum í dag, um einhverjar uppsagnir og hagræðingaraðgerðir hjá fyrirtækjum,“ sagði Kjartan Már í Morgunþætti RÚV í morgun.

Ríkisvaldið bregðist við

Kjartan Már segir að þetta sé strax orðið eitt versta ástand sem sést hefur á svæðinu.

„Já ég held að það megi segja það. Þetta fór reyndar ansi hátt þegar varnarliðið hvarf hér 2006 og svo eftir bankahrunið 2008. En ég held því miður að við séum að sjá ennþá hærri tölur þegar öll kurl verða komin til grafar. Flugvöllurinn er svo gríðarlega stór, hann er langstærsti vinnustaður hér á þessu svæði og kannski á landinu öllu ef við lítum á hann sem einn vinnustað. Þegar það dregst mikið saman þar, þá hefur það mikil áhrif á allt hér.“

Kjartan Már segir samt sem áður að sveitarfélagið sé ágætlega í stakk búið til að takast á við svona áfall.

„Ég á eftir að skoða betur niðurstöður þessa pakka sem var samþykktur í þinginu í gær, ég hef ekki skoðað hann gaumgæfilega í dag. En það sem við höfum verið að kalla eftir er að ríkið sinni sínum stofnunum og veiti nægt fjármagn til að sinna stofnunum á þessu svæði eins og því ber. Og þá erum við að tala um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, við erum að tala um lögreglu, framhaldsskóla, samgöngur og fleira. Því íbúafjölgun hefur verið, eins og oft hefur komið fram, gríðarlega mikil hér undanfarin ár. Og ríkisstofnanir hafa ekki fengið fjármagn í takt við íbúafjölgun,“ segir Kjartan Már.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi