12 ára stúlka lést úr COVID-19 í Belgíu

31.03.2020 - 20:00
Erlent · Belgía · COVID-19 · Ítalía · Spánn · Evrópa
Mynd: AP images / AP images
Tilkynnt var í Belgíu í dag að tólf ára stúlka hefði látist úr COVID-19. Útbreiðsla sjúkdómsins gæti hafa náð hámarki á Spáni samkvæmt heilbrigðisráðherra og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin býst við því að útbreiðslan á Ítalíu verði orðin stöðug á næstunni.

Yfir 200 þúsund hafa greinst á Spáni og Ítalíu og dauðsföll vegna COVID-19 eru orðin yfir tuttugu þúsund. En síðustu dagar hafa gefið vísbendingar um að hápunktinum hafi mögulega verið náð. „Út frá gögnum sem við höfum getum við staðfest, af mikilli varfærni, að hafi útbreiðslan ekki náð hámarki núna séum við afar nálægt hátindinum,“ sagði Salvador Illa, heilbrigðisráðherra Spánar, á blaðamannafundi í gær. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin á von á því að útgöngubannið á Ítalíu valdi því að útbreiðsla veirunnar þar verði orðin stöðug á næstunni. „Sýktum fer fækkandi þó að við tökum jafnmörg sýni og við höfum gert undanfarna daga,“ sagði Franco Loctelli, formaður heilbrigðisnefndar á Ítalíu. 

Hátt í eitt þúsund látin í Belgíu

Í Belgíu hafa hafa nærri 13.000 greinst með sjúkdóminn og hátt í 900 látist. Emmanuel André, talsmaður neyðarmiðstöðvar vegna COVID-19 í Belgíu, tilkynnti í dag um andlát 12 ára stúlku. „Þetta er afar erfið stund tilfinningalega vegna þess að barn á í hlut og það hefur áhrif á samfélag lækna og vísindamanna.“ Steven Van Gucht veirufræðingur bætti því við að mikilvægt væri að nefna að dauðsföll hjá ungu fólki séu afar fátíð. „Við vitum ekki hvers vegna þetta fór svona og það er mikilvægt að rannsaka hvert tilfelli,“ sagði Gucht. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi