„Fólk er gjörsamlega miður sín“

30.03.2020 - 21:05
Valgerður Rúnarsdóttir í Kastljósi
 Mynd: Fréttir
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir og forstjóri á Vogi, segist hafa miklar áhyggjur af áframhaldandi starfsemi Vogs í ljósi óánægju starfsfólks. Því sé misboðið og miður sín vegna stöðu mála. Valgerður sagði upp starfi sínu eftir að framkvæmdastjórn SÁÁ sagði upp átta starfsmönnum, þar á meðal öllum sálfræðingum, til að mæta rekstrarvanda og tekjumissi sem blasir við hjá Vogi vegna Covid-19 faraldursins.

Valgerður var gestur Kastljóss í kvöld. Hún segir að ákvörðunin hafi verið snögg og óundirbúin og að ólíðandi sé að hún hafi verið tekin án samráðs við hana eða aðra starfsmenn meðferðarsviðs.  Sálfræðingar hafi alla tíð unnið á meðferðarsviði og séu lykilstarfsmenn í starfseminni í dag.  Stétt sáfræðinga hafi verið skorin út án þess að kannað hafi verið hvaða áhrif það hafi á framtíð meðferðarinnar.  

„Þeir skipta mjög miku máli faglega og það er ekki bara ég sem er á þeirri skoðun heldur allir starfsmennirnir. Starfsmönnum á velferðarsviði er mjög misboðið og hafa gefið út yfirlýsingu um vantraust á framkvæmdastjórnina og stjórnarformanninn. Þau eru mjög alvarleg yfir þessu og langflestir starfsmennirnir á meðferðarsviðinu skrifa undir þessa yfirlýsingu. “

Starfsfólk meðferðarsviðs á Vogi lagði fram vantrauststillögu á hendur framkvæmdastjórninni í gær en fyrrverandi forstjóri lagði fram frávísunartillögu á þá tillögu á fundi stjórnar í gær og hún var samþykkt. Að öllu óbreyttu situr því stjórnin áfram en Valgerður hættir. 

Segir ljóst að ríkið þurfi að koma að rekstrinum

Valgerður segir að SÁÁ hafi hingað til unnið gott starf en að nauðsynlegt sé að ríkið taki við rekstrinum.  Óvissa ríki um rekstur Vogs á meðan starfsfólk sé óánægt. 

„Ég hef miklar áhyggjur af því. Fólk er gjörsamlega miður sín. Því miður. Þetta er frábært starfsfólk og fyrir nokkrum vikum þá vorum við rosalega bjartsýn, það var margt gott að gerast og mikil stemning. Ég veit ekki hvað þarf til að ná því aftur upp en ég vona að það sé mögulegt í nýju umhverfi. Rikið þarf að koma að þessu - það er engin spurnig um það. Það er enginn, ég eða nokkur annar, sem getur galdrað þessa peninga fram“

Hér má horfa á Kastljósþátt kvöldsins.