Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kári gagnrýnir Dani og Norðmenn fyrir óðagot

14.03.2020 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar gagnrýnir viðbrögð Dana og Norðmanna við kórónaveirunni og segir þau virðast einkennast af óðagoti. Hann hrósar sóttvarnalækni og landlækni fyrir hvernig tekið hafi verið á málinu hér. Niðurstöður úr sýnatökum í gær koma í kvöld en sóttvarnalæknir ákveður hvenær þær verða kynntar, segir Kári.

Fyrstu niðurstöður úr skimun í kvöld

510 sýni til að skima fyrir kórónaveirunni voru tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær og Kári Stefánsson reiknar með að eitt þúsund manns komi í sýnatöku í dag: 

„Við erum að vinna úr þessum sýnum sem við fengum í gær. Ég reikna með því að við verðum búin að því svona um kvöldmatarleytið en síðan er það í höndum sóttvarnalæknis nákvæmlega hvenær og hvernig verður sagt frá þeim niðurstöðum. En ég hugsa bara að það verði fljótlega eftir að þær liggja fyrir.“

Kári segir hlutverk Íslenskrar erfðagreiningar að þjónusta þjóðfélagið í gegnum sóttvarnalækni.

Til hvers að loka landinu þegar það er fullt af sýktu fólki

Honum finnst landlæknir, sóttvarnalæknir, lögreglan og almannavarnir hafa tekið á málinu ótrúlega vel og farið eftir fræðunum.

„Mér finnst hins vegar eins og Danir og Norðmenn hafi lent í einhverri panik. Danir gerðu ekkert þangað til allt í einu þeir loka landinu. Og til hvers er verið að loka landinu þegar landið er fullt af fólki sem hefur sýkst. Þá eiga þeir ekki að þurfa að hafa stórar áhyggjur af því að það komi fleiri inn í landið sem kunna líka að vera sýktir. Þannig að ég átta mig ekki á frændum okkar í Skandinavíu en mér finnst Þórólfur og Alma hafa setið sallaróleg, yfirveguð, hafa ekki verið að láta ýta sér í að gera þá hluti sem þeim finnast ekki skynsamlegir. Þannig að ég held að við getum barið okkur á brjóst og verið stolt af þessu fólki.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV