Rétt rúmlega tvö hundruð þúsund kórónuveirusmit hafa verið greind í Evrópu samkvæmt nýjustu samantekt AFP fréttastofunnar. Langflest eru þau á Ítalíu, 63,927, og 39,673 á Spáni. Alls hafa 10.732 látist í Evrópu af völdum COVID-19 sjúkdómsins.
Veiran er mun útbreiddari í Evrópu en öðrum heimsálfum. Í Asíu hafa til að mynda tæplega 98 þúsund smitast og 3.750 dáið. Kórónuveiran skæða uppgötvaðist fyrst í Hubei héraði í Kína í lok síðasta árs.
Tekið er fram í frétt AFP fréttastofunnar að þær opinberu tölur sem þarna er vitnað til sýni ekki heildarmyndina af útbreiðslu kórónuveirunnar. Í sumum Evrópulöndum sé ekki skimað fyrir henni fyrr en fólk leggst inn á sjúkrahús.