Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

200 milljónir í skattsvika- og peningaþvættisvarnir

18.01.2020 - 11:12
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Héraðssaksóknari og skattayfirvöld fá 200 milljóna aukafjárveitingu úr ríkissjóði til að sinna peningaþvættisvörnum, skattrannsóknum og skattaeftirliti á þessu ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu sem birt var í morgun. Ákvörðunin kemur í framhaldi af yfirlýsingu stjórnvalda frá 19. nóvember „um aðgerðir til að auka traust á íslensku atvinnulífi“, eins og það var orðað. Sú yfirlýsing var send eftir umfjöllun Kveiks og fleiri fjölmiðla um Samherjamálið.

Féð rennur til Héraðssaksóknara, Skattrannsóknastjóra og Skattsins, sem er ný sameinuð stofnun utan um verkefni Ríkisskattstjóra og Tollstjóra. Allar stofnanirnar kölluðu eftir meira fé í kjölfar umfjöllunarinnar um Samherjamálið. Í minnisblaði Héraðssaksóknara til dómsmálaráðuneytisins kom fram að hann þyrfti sex starfsmenn til viðbótar til að sinna rannsóknum, en nefndi þó hvergi Samherjamálið sérstaklega. Hann tók líka fram að mögulega þyrfti hann tvo menn enn á síðari stigum.

Í yfirlýsingunni frá í morgun segir að fjármunirnir muni fara í eflingu rannsókna og fjölgun rannsakenda hjá embættunum. Þar segir líka að við gerð fjármálaáætlunar 2021-2025 verði tekin ákvörðun um viðvarandi hækkun gjaldaheimilda.