Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

200-faldur íbúafjöldi Íslands á flótta

Róhingjar á flótta frá Mjanmar. - Mynd: EPA-EFE / EPA
„Það er ýmislegt sem er í gangi og hefur verið í gangi síðastliðin tíu ár, aukning á stríði og átökum, ofsóknir, loftslagsbreytingar sem við höfum farið að finna fyrir og svo er það öfgastefna sem gerir það að verkum að fólk hefur sig upp úr sínu landi því það finnur ekki lengur til öryggis.“ Þetta er meðal þess sem Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi telur orsaka það að í dag eru tvöfalt fleiri á flótta í heiminum en fyrir áratug síðan.

Hlýða má á viðtalið við Stellu í spilaranum hér fyrir ofan. 

Fordæmalaus en þó varlega áætlaður

Meira en sjötíu milljónir manna flýja nú ofsóknir, stríð og átök, helmingur þeirra er á barnsaldri. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um þróun á heimsvísu sem birt var í morgun og tekur til stöðunnar í lok árs 2018. Aldrei í tæplega sjötíu ára sögu Flóttamannastofnunarinnar hefur talan verið hærri og þó segja skýrsluhöfundar fjöldann varlega áætlaðan. Að líklega séu fleiri á flótta, tölurnar endurspegli til dæmis ekki allan þann fjölda sem flúið hefur Venesúela. 

70,8 millljónir. Það jafngildir 200-földum íbúafjölda Íslands, 11 földum íbúafjölda Danmerkur og einum fimmta af íbúafjölda Bandaríkjanna. 

Tölur og manneskjur af holdi og blóði

Vandinn hefur vaxið hratt undanfarin ár. Þannig eru tvöfalt fleiri á flótta í dag en fyrir tíu árum, það skrifast aðallega á stríðið í Sýrlandi en fleira kemur til; svo sem stríð og átök í Írak, Jemen og nokkuð víða í Suður-Afríku. 

Að meðaltali hrekjast 37 þúsund manns á flótta á hverjum degi og allt árið í fyrra bættust um 2,2 milljónir í hópinn.

Í skýrslunni úir og grúir af tölum en í myndbandi sem fylgir henni er lögð áhersla á raddirnar og andlitin á bak við þessar tölur, raddir manneskja sem ekki áttu annarra kosta völ en að halda út í óvissuna í von um að halda lífi, til þess að vernda börnin sín eða til þess að komast hjá ofsóknum og pyntingum. Sýrlensk stúlka sem missti föður sinn í skotárás, læknir frá Venesúela sem flúði, ásamt fjölskyldu sinni, eftir að hafa fengið morðhótanir, Róhingjafjölskyldur sem sitja fastar í flóttamannabúðum í Bangladess. Margir hafa misst ástvini og eignir, undirstöður daglegs lífs þeirra hafa hrunið. 

Kallar eftir aukinni samkennd

Það fjölgar hratt í hópnum, hraðar en gengur að finna úrræði. Í skýrslunni segir að farsælast sé þegar flóttafólk geti snúið aftur heim í öruggt ástand, sjálfviljugt og með reisn. Í fyrra áttu tæplega 600 þúsund þess kost. Rúmlega sextíu þúsund fengu ríkisborgararétt. Þá segir þar að bjarga megi mannslífum með því að gera flóttafólki kleift að komast úr erfiðum aðstæðum og setjast að í nýjum stað. Í þessum hópi er fólk sem komið hefur hingað til lands úr flóttamannabúðum sem kvótaflóttamenn, fólk í veikri stöðu. Í fyrra taldi Flóttamannastofnunin þörf á því að finna 1,4 milljónum flóttamanna nýjan samastað með þessum hætti en árangurinn var slakur, það tókst að koma 7% þeirra í betri aðstæður í öðru landi, eða 92 þúsundum. 

epa05508593 United Nations High Commissioner for Refugees Filippo Grandi (R) talks with a Syrian refugee family living in an appartment in Athens, Greece, 24 August 2016. About 58,000 people are stranded in the country most of them live at refugees camps
Filippo Grandi ræðir við sýrlenska flóttamenn í Aþenu í gær. Mynd: EPA - ANA-MPA
Filippo Grandi með sýrlensku flóttafólki árið 2016.

Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, hrósar í skýrslunni því sem vel er gert, svo sem því örlæti sem mörg nágrannaríki ríkja sem fólk flýr hafa sýnt með því að skjóta yfir fólk skjólshúsi. Hann kallar þó eftir aukinni samstöðu og samkennd með þeim þúsundum sem á degi hverjum séu þvingaðar á flótta. Það þurfi að leggja áherslu á lausnir og fjarlægja hindranir sem komi í veg fyrir að fólk geti farið aftur til síns heima. Öll ríki þurfi að taka höndum saman með hagsmuni allra í huga því málefni flóttamanna séu ein stærsta áskorun okkar tíma.

Hvetja ríki til að vernda borgara Venesúela

Stærstur hluti hópsins, 41 milljón, er á flótta innan eigin heimalands, tæpar 26 milljónir hafast við í öðru landi, yfirleitt nágrannalöndum sem ekki eru að drukkna í velsæld. Minnihluti, 3,5 milljónir, hefur farið þá leið að sækja um alþjóðlega vernd í öðru ríki. Tveir þriðju hlutar koma frá fimm löndum. Sýrlandi (6,7 milljónir) Afganistan (2,7 milljónir), Suður-Súdan (2,3 milljónir), Mjanmar (1,1 milljón) og Sómalíu (900 þúsund). Þá hafa um fjórar milljónir Venesúela-manna nýverið flúið sjúkdóma, örbirgð, morðhótanir og upplausn heimafyrir. Vandinn í Venesúela er einn stærsti nýji vandinn í dag, að mati Flóttamannastofunarinnar og hún hvetur ríki heims til að veita fólki sem þaðan flýr skjól og senda það alls ekki aftur til Venesúela þar sem líf þess kunni að vera í hættu. Talið er að tæpar fjórar milljónir hafi þegar flúið landið, aðeins hálf milljón hefur sótt um alþjóðlega vernd í öðru ríki, en Flóttamannastofnunin telur að flestir þeir sem flýja Venesúela eigi rétt á slíkri vernd. Upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar segir flesta sem hér sækja um vernd nú koma frá Írak. Þá hafi fjölgað í hópi umsækjenda frá Venesúela.