20% mæðra beittar ofbeldi á meðgöngu

28.05.2015 - 17:14
Ástþóra Kristinsdóttir
 Mynd: Ástþóra Kristinsdóttir
Um 20 prósent íslenskra mæðra eru beittar ofbeldi á meðgöngu. Þetta kemur fram í rannsókn Ástþóru Kristinsdóttur, ljósmóður og hjúkrunarfræðings. Heilbrigðisstarfsfólk ber ríka ábyrgð hvað ofbeldi og ógnandi hegðun í garð barna varðar en þó er líka vilji til að hjálpa fólki í ofbeldissamböndum.

Ofbeldismaður var nýlega dæmdur í sex mánaða nálgunarbann vegna ofbeldis gagnvart unnustu sinni. Í Fréttablaðinu í dag segir að, samkvæmt greinargerð lögreglu, hafi ofbeldishrinan hafist með ógnandi hegðun mannsins gagnvart barnsmóðurinni á fæðingardeild Landspítalans.

Landspítalinn með ríkar skyldur gagnvart börnum
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hafa heilbrigðisstarfsmenn mjög ríkar skyldur til að tilkynna um allt ofbeldi eða ógnandi hegðun gagnvart börnum. Félagsráðgjafi er þá kallaður til og svo barnaverndarnefnd, ef á við. Ekki er nauðsynlegt að grunur um ógn eða ofbeldi gagnvart barni sé rökstuddur heldur er nóg að heilbrigðisstarfsmaður telji að ekki sé allt með felldu.

Hvað fullorðna varðar er annað uppi á teningnum. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum reyna starfsmenn eftir fremsta megni að hjálpa fólki sem er í ofbeldissamböndum en misjafnt sé hvernig því er tekið.

Verklagsreglum virðist hafa verið fylgt
Verklagsreglur Landspítalans hafa nýverið verið yfirfarnar, samkvæmt upplýsingum frá spítalanum. Skylda heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna ógnandi hegðun snýr fyrst og fremst að börnum. Ekki var haft samband við lögreglu vegna ógnandi hegðunar manns  á fæðingardeildinni, en þó virðist sem verklagsreglum spítalans hafi verið fylgt þar sem ógnandi hegðun mannsins snéri að móðurinni en ekki að börnunum.

Tilgátur um orsakir ofbeldistíðni gagnvart ófrískum konum
Ofbeldi hefst upphaflega á meðgöngu hjá 30 prósentum þeirra kvenna sem beittar eru heimilisofbeldi, samkvæmt Ástþóru. Hún segir aðeins tilgátur uppi um ástæður þess hversu algengt ofbeldi er gagnvart ófrískum konum þar sem engar óyggjandi niðurstöður er að fá úr rannsóknum. Sumar sýna fram á að mögulega verða karlar í einhverjum tilfellum afbrýðsamir af því að þeir fá minni eða öðruvísi athygli þar þegar hún færist frá þeim og yfir á barnið. Í einhverjum tilfellum má líka tengja ofbeldishegðun við breytinguna sem verður á líkama konunnar. „Þeir eru þá ekki sáttir við það og vilja hafa konuna eins og hún var," segir Ástþóra.

Streita getur haft áhrif á barn í móðurkviði
Hún segir heimilisofbeldi vera flokkað með mestu mögulegum streituvöldum. „Streituhormónið sem við verðum fyrir við heimilisofbeldi mælist í legvatni frá sautjándu viku meðgöngu og hefur þar með áhrif á barnið,“ segir Ástþóra. Hún segir mikilvægt að konur viti að heilbrigðisstarfsfólk er tilbúið til að aðstoða þær vegna þess að því fyrr sem gripið er inn í og konum veitt aðstoð og stuðningur, þeim mun minni verða áhrifin á barnið til frambúðar.

Nánara samstarf æskilegt
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í Fréttablaðinu í dag að hún vonist eftir nánara samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og að það sé brýnt að heilbrigðisstarfsfólk sé vakandi fyrir heimilisofbeldi.

Falast var sérstaklega eftir upplýsingum frá Landspítalanum um málsatvikin þegar maður ógnaði barnsmóður sinni á fæðingardeildinni. Engin svör var að fá um málið þar sem almenn regla spítalans er að tjá sig ekki um einstök mál.

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi