Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

20 börn fengu ferðastyrk frá Icelandair

26.10.2019 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Icelandair
Icelandair afhenti 20 börnum og fjölskyldum þeirra ferðastyrk úr sjóði Vildarbarna flugfélagsins. Sjóðurinn er meðal annars byggður á framlögum frá farþegum Icelandair sem kjósa að skilja eftir gjaldeyri í sérstökum umslögum áður en gengið er frá borði.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að alls hafi 697 fjölskyldur notið stuðnings úr sjóðnum frá stofnun hans fyrir 16 árum. Úthlutað hefur verið 33 sinnum. Markmið sjóðsins er að gefa langveikum börnum og börnum sem búa við erfið skilyrði og fjölskyldum þeirra tækifæri til að fara í draumaferðina sína.

Í styrkjunum fest skemmtiferð fyrir barnið og fjölskyldu þess og er allur kostnaður greiddur, það er flug, gistingu, dagpeninga og aðgangseyri að sérstökum viðburði sem barnið óskar sér.

Sjóðurinn Vildarbörn er fjármagnaður með beinu fjárframlagi Icelandair, frjálsum framlögum félaga í Saga Club Icelandair sem geta gefið af Vildarpunktum sínum, með söfnun myntar um borð í flugvélum Icelandair, sölu á Vildarenglinum um borð í flugvélum Icelandair og söfnunarbaukum á Keflavíkurflugvelli sem og söluskrifstofum Icelandair. Einnig koma til frjáls framlög og viðburðir.

Það var Peggy Hegason, eiginkona Sigurðar Helgasonar fyrrverandi forstjóra Flugleiða, sem á hugmyndina að Vildarbarnasjóðnum. Peggy og Sigurður sitja í stjórn sjóðsins en Sigurður er einnig stjórnarformaður Icelandair Group. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er verndari sjóðsins.