Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

19 sýni af 1.800 jákvæð hjá Íslenskri erfðagreiningu

16.03.2020 - 14:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Enn bendir allt til þess að innan við eitt prósent almennings á Íslandi hafi sýkst af COVID-19 kórónaveirunni, að því er segir í tilkynningu á Facebook-síðu Íslenskrar erfðagreiningar. Búið er að taka 3.087 sýni á vegum fyrirtækisins, sóttvarnalæknis og sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans í Turninum í Kópavogi. Niðurstöður eru komnar úr sýnum úr 1.800 einstaklingum og af þeim voru nítján með sjúkdóminn.

Gert er ráð fyrir að um þúsund niðurstöður til viðbótar verði tilbúnar í kvöld, og að greind sýni þaðan verði þá alls 2.800.

Um 14.000 manns hafa skráð sig í skimun til 27. mars. Í tilkynningunni segir að annað slagið losni tímar þegar afbókanir berist. Hægt sé að fylgjast með því á bokun.rannsokn.is.

Alls hafa 180 greind smit verið staðfest hér á landi, að því er fram kom á upplýsingafundi Almannavarna klukkan 14:00. Þrír liggja á Landspítalanum vegna COVID-19 veirusmits. Tveir þeirra eru á gjörgæslu.