16 COVID-19 smit staðfest hér á landi

04.03.2020 - 06:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sextán hafa greinst með COVID-19 veiruna hér á landi. Þetta staðfestir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, við Morgunblaðið. Tvö jákvæð sýni bættust við seint í gærkvöld. Þau voru úr karli og konu á sextugsaldri sem voru á skíðum á Norður-Ítalíu en komu til landsins með flugi frá München á laugardag. Þau eru ekki mikið veik.

Víðir segir að búið sé að greina 230 sýni. „Þetta er í raun al­veg ótrú­leg­ur fjöldi sem búið er að skoða. Þess­ir tveir ein­stak­ling­ar sem hér um ræðir eru hluti af þess­um hópi sem við erum búin að fylgj­ast með og voru í sótt­kví,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Um 300 manns eru nú í sóttkví. Þetta er að langmestu leyti fólk sem kom frá Veróna og München á laugardag og hafði verið á skíðum á Norður-Ítalíu. Von er á hópi Íslendinga frá Veróna á laugardag og verður þeim öllum gert að vera í heimasóttkví næstu fjórtán daga.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV