Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

1.500 greindir með COVID í faraldrinum, samkvæmt líkani

25.03.2020 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Gert er ráð fyrir því að á meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir verði 1.500 manns á Íslandi greindir með sjúkdóminn, samkvæmt líklegustu spá en talan gæti náð nær 2.300 manns samkvæmt svartsýnustu spá, samkvæmt nýuppfærðu spálíkani vísindamanna Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis, og Landspítala. Eins og staðan var í dag höfðu 737 smit verið greind. 15 liggja á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins, þar af tveir á gjörgæslu.

Samkvæmt líkaninu nær fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm hámarki í fyrstu vikunni í apríl, líklega um 1200 manns, samkvæmt líklegustu spá. Fjöldinn gæti orðið um 1.600 manns samkvæmt svartsýnustu spá.

Gert er ráð fyrir að á meðan að faraldurinn gengur yfir þurfi rúmlega 100 manns að leggjast inn á sjúkrahús. Fjöldinn gæti þó orðið hátt í 160 manns miðað við svartsýnustu spá í líkaninu.

Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður fyrir miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að tæplega 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma. Samkvæmt svartsýnustu spá verða 80 manns á sjúkrahúsi á þessum tíma vegna COVID-19. Samkvæmt líkaninu eiga 13 manns eftir að veikjast alvarlega og þurfa innlögn á gjörgæslu. Samkvæmt svartsýnustu spá verða fjöldinn 23 einstaklingar. 

Því er spá að mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri vikunni í apríl. Þá er búist við að fimm manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnustu spá gætu það verið 11 manns.

Á vef Háskóla Íslands segir að greiningarvinnan haldi áfram og að spálíkanið verði uppfært reglulega með nýjum upplýsingum. Hafa beri í huga að vegna fámennis geti tölurnar um fjölda greindra tilfella breyst mikið frá degi til dags sem hafi áhrif á niðurstöður spálíkansins. Líkanið verði þó stöðugra eftir því sem á líði.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir