150 sátu fastir undir Eyjafjöllum

28.02.2020 - 10:42
Mynd: Vegagerðin / Vegagerðin
150 manns í það heila sátu fastir á vegum undir Eyjafjöllum, þá aðallega við Jökulsá á Sólheimasandi í nótt. Vonskuveður var víða. Björgunarsveitir af Suðurlandi og Suðurnesjum voru á fullu við að aðstoða fólk sem lent hafði í vanda í gærkvöld og fram á nótt. Tugir beiðna um aðstoð bárust á hvoru svæði um sig.

Um klukkan fimm í gær fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um bíl sem fastur var í snjó á brúnni yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Bíllinn stöðvaði alla umferð um brúna. Þegar lögreglan kom á staðinn var löng röð bíla beggja vegna við. Veður var afleitt og snjór hlóðst að röðinni. Þegar var hafist handa við að greiða úr flækjunni en á endanum hafði björgunarfólk flutt fólk úr um það bil 45 bílum í húsaskjól, ýmist að Skógum eða Heimalandi. Þar opnaði Rauði Kross Íslands fjöldahjálparstöð þar sem um 100 gistu í nótt. 

Engar bjargir komust austur fyrir Hemlu frá því um tíu leytið í gærkvöldi. Bílar björgunarsveita sem voru á leið austur biluðu eða þurftu að sinna öðrum verkefnum. Mjög blint var frá Hellu og austur og sást ekki fram fyrir vélarhlífar bifreiðanna.  Um klukkan eitt fór að rofa til og þá var fyrst hægt að flytja fólk. Fyrst var allt fólk flutt á Hótel Skógafoss. Þá var fundinn næturstaður fyrir fólkið en um 38 manns fóru í gistingu á Hótel Eddu. Um hundrað voru fluttir að Heimalandi í fjöldahjálparstöðina. Fjórir gistu í bílum sínum. 

Flytja átti fólkið með stórum trukki frá Heimalandi að bílum sínum í dag. Þá ætlar Björgunarsveitin Bróðurhönd að sækja þá sem voru á öðrum gististöðum. Snjóbíll með tönn mokaði í nótt frá bílaröðinni og greiddi þannig fyrir opnun vegarins en hann er enn lokaður. 

Vetrarfærð er á Suðurlandi en vegir eru óðum að opnast. Líklegt er þó að vegurinn undir Eyjafjöllum og að Vík opnist ekki fyrr en undir eða um hádegisbil. Snjóþekja er á flestum aðalleiðum á Suðvesturlandi og einhver ofankoma. 

Starfsmaður Vegagerðarinnar sendi fréttastofu þetta myndband af aðstæðum á veginum.