Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

150 björgunarsveitarmenn við leit

03.01.2020 - 13:49
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
150 björgunarsveitarmenn frá Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Húnavatnssýslu leita að Andris Kalvans sem ekkert hefur heyrst frá síðan fyrir helgi. Leitarsvæðið miðast við Heydal í Hnappadal á Snæfellsnesi og nærliggjandi svæði.

Ægir Þór Þórsson, stjórnandi aðgerða, sagði í hádegisfréttum útvarps að fáar vísbendingar hafi komið fram síðan lýst var eftir Andris. Bíll hans hafi fundist á Heydal og vitað er að Andris er vanur fjallgöngumaður. „Miðað við hvar hann skilur bílinn eftir er líklegt að hann hafi ætlað að ganga á fjöll hér í nágrenninu.“

Ægir Þór segir að stórt svæði sé undir í leitinni þar sem ekki hafi tekist að þrengja hringinn. „Við erum með leitarhunda, fjórhjól, sexhjól, gönguhópa og fjallabjörgunarhópa sem eru að leita þessar bröttustu hlíðar.“
Leitað verður fram á myrkur. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um leit um helgina en staðan verður metin ásamt lögreglu í lok dags.