Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

15 létu lífið í eldsvoða á heimili munaðarlausra

15.02.2020 - 01:40
epa08218326 View of an orphanage where 15 children died in a fire in Port-au-Prince Haiti 14 February 2020. At least 15 children died in a fire at an orphanage in Port-au-Prince run by a Christian congregation of the United States, official sources reported Friday.  EPA-EFE/Jean Marc Abelard
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Fimmtán börn létu lífið í eldsvoða á heimili fyrir munaðarlaus börn á Haítí í gær. Upptök eldsvoðans eru til rannsóknar, en samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins, BBC, voru kerti notuð til að lýsa upp heimilið í stað rafmagnsljósa. Heimilið er meðal mörg hundruð heimila fyrir munaðarlaus börn sem er starfrækt án leyfis frá yfirvöldum. 

BBC hefur eftir Arielle Jeanty Villedrouin, stjórnanda félagsmálastofnunar í höfuðborginni Port-au-Prince, að um 60 börn hafi dvalið á heimilinu þegar eldsvoðinn varð. Unnið er að því að finna þeim nýtt þak yfir höfuðið. 

Bandarísk kristniboðssamtök ráku heimilið. Á vefsíðu samtakanna segir að þau hafi fyrst opnað heimili fyrir munaðarlaus börn á Haítí fyrir fjörutíu árum.

Samkvæmt heimildum hins opinbera á Haítí voru kerti notuð þar sem rafall heimilisins var óvirkur. Að sögn dómara í höfuðborginni var heimilið rekið án réttinda allt frá árinu 2013. Hann sagði það engan vegin standast grunnskilyrði, og að húsnæðið væri verulega vanrækt. Líkti hann aðbúnaðinum við dýrahald, og bætti því við að engin slökkvitæki hafi verið til staðar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV