Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

15% karla með yfir milljón í mánaðarlaun

Mynd með færslu
 Mynd: Inspirally
Óleiðréttur launamunur kynjanna var 16,1 prósent í fyrra en hafði verið 17 prósent árið 2015. Munurinn var rúm 16 prósent bæði á almennum vinnumarkaði og hjá ríkisstarfsmönnum. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Hjá starfsmönnum sveitarfélaga var munurinn rúm 8 prósent.

15 prósent karla voru með eina milljón eða meira í mánaðarlaun í fyrra en tæplega 6 prósent kvenna. Þá var fimmta hver kona með heildarlaun undir 400.000 krónum á mánuði fyrir fullt starf en fjórtándi hver karl. 

Heildarlaun kvenna voru að meðaltali 22 prósentum lægri en heildarlaun karla í fyrra. Hjá körlum voru heildarlaunin að meðaltali 742.000 krónur en hjá konum 582.000. Vinnutími skýrir að hluta til hærri heildarlaun karla en kvenna fyrir fullt starf, að því er segir á vef Hagstofunnar. Karlar í fullu starfi hafi unnið að jafnaði meira en konur í fullu starfi. Greiddar stundir til karla voru að meðaltali 189,1 á mánuði í fyrra en 179,7 hjá konum. Því var minni munur á grunnlaunum fullvinnandi launamanna eftir kyni eða um 12 prósent enda yfirvinna ekki hluti grunnlauna. Munurinn á reglulegum launum karla og kvenna, það eru grunnlaun auk fastra bónus- og álagsgreiðslna, var rúm 15 prósent.

 

 

Útreikningur Hagstofunnar  á óleiðréttum launamun kynjanna byggir á aðferð evrópsku hagstofunnar Eurostat og launarannsókninni Structure of Earnings Survey. Stuðst er við fastar reglulegar greiðslur auk yfirvinnu í október ár hvert. Óreglulegar greiðslur sem falla til í október eru undanskildar. Við mælingar á launamun er tímakaup kynjanna reiknað og mismunur þess sem hlutfall af meðal tímakaupi karla túlkað sem óleiðréttur launamunur. Tímakaupið nær til grunnlauna, fastra álags- og bónusgreiðslna auk yfirvinnu. Ekki er tekið tillit til þátta sem geta haft áhrif á laun, eins og starf, menntun, aldur og starfsaldur. 

Hér má lesa frétt Hagstofunnar um launamun kynjanna.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir