15% geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu

17.02.2016 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnarskrárnefnd hefur náð saman um tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur, auðlindamál og umhverfismál. Stefnt er að því að greina frá samkomulaginu á föstudag.

Forsætisráðherra skipaði nefndina í nóvember 2013 og eiga allir flokkar á Alþingi fulltrúa í henni. Stefnt var að því að nefndin lyki störfum tímanlega svo hægt væri að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á kjörtímabilinu. Fréttastofan greindi frá því í desember að samráð við þingflokla og annað bakland hafi reynst tímafrekt, en stefnt var að því að ljúka vinnu við frumvarp um miðjan janúar.

Nefndin átti fund í gær og hefur náðst samkomulag um veigamikil atriði. Nefndarmenn sem fréttastofa ræddi við verjast frétta en Jón Kristjánsson fyrrverandi ráðherra og annar fulltrúa Framsóknarflokksins í nefndinni staðfesti að útlit væri fyrir samkomulag og hann væri ánægður með að það hilllti undir lok þessa áfanga.

Heimildir fréttastofu herma að nefndin hafi náð saman um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem kveðið sé á um að 15% atkvæðisbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi samþykkir. Þá hefur fréttastofan heimildir fyrir því að samkomulag hafi tekist um auðlindir, að þær séu í eigu þjóðarinnar og eðlilegt gjald komi fyrir nýtingu þeirra. Þá eru nefndarmenn sammála um að náttúrunnar og umhverfisins verði getið í stjórnarskrá þar sem kveðið sé á um að náttúran sé á ábyrgð allra og að gengið sé um hana með sjálfbærum hætti. Stjórnarskrárnefnd kemur aftur saman til fundar á morgun, en stefnt er að því að hún skili af sér tillögunum fyrir helgi. 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi