Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

15% fjölgun kynferðisbrota hjá lögreglunni

31.12.2019 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Fimmtán prósent fleiri kynferðisbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ár miðað við árið 2018. Þetta kemur fram í tölfræði lögreglunnar sem birt er á Facebook í dag, síðasta dag ársins.

Fjölgunin verður aðallega vegna mun fleiri tilkynninga um kynferðislega áreitni og rannsóknar lögreglu á málum er varða kaup á vændi, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Alls fékkst lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við 82 þúsund mál á árinu. Það gera 250 mál dag hvern allt árið og 10 mál á hverri klukkustund. 9.900 málanna voru hegningarlagabrot, ívið fleiri en á síðustu árum.

16.600 brutu af sér í umferðinni

37 þúsund umferðarlagabrot voru skráð hjá embættinu árið 2019. Þar eru ekki tekin með hraðakstursbrot sem nást á hraðamyndavélar Vegagerðarinnar í umdæminu. 16.600 einstaklingar brutu af sér í umferðinni. „Lögreglan skráir um 101 umferðarlagabrot á hverjum sólarhring,“ segir í tilkynningunni. 19.300 hraðakstursbrot voru skráð innan umdæmisins, utan þeirra sem náðust á myndavélar Vegagerðarinnar.

Stikklað er á stóru í tilkynningunni. Þar kemur fram að um helmingur allra mála sem lögregla sinnir flokkast sem verkefni. Það geta verið viðfangsefni sem snúa að aðstoð við stjórnvöld, félagasamtök eða við íbúa höfuðborgarsvæðisins vegna ýmissa mála. Þar má nefna aðstoð vegna veikinda, annarlegs ástands eða misnotkunar lyfja.

Málum er varða misnotkun lyfja fjölgar verulega hjá lögreglu. Að jafnaði sinnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 10 slíkum verkefnum á dag alla daga ársins.

Þá hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sent rúmlega 2.600 tilkynningar til barnaverndar vegna afskipta af börnum. Lögreglan hefur svarað 224 erindum frá barnavernd vegna málefna barna.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV