Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

141 bjargað milli Spánar og Marokkó

13.07.2019 - 22:56
epa07675756 Part of the 72 migrants who were rescued when they sailed on two small canoes near Alboran Island on Mediterranean Sea arrive to the Motril's Port in Granada, southern Spain, 26 June 2019.  EPA-EFE/MIGUEL PAQUET
Nokkrir þeirra 72 flóttamanna sem bjargað var milli Spánar og Marokkó 26. júní síðastliðinn stíga á land í Granada  Mynd: epa
141 flóttamanni var bjargað um borð í skip spænsku strandgæslunnar í dag, á hafsvæðinu milli Spánar og Marokkó. Spænsk yfirvöld greina frá þessu. Flóttafólkinu var bjargað af misgæfulegum og yfirfullum fleytum af ýmsu tagi.

Hálfsokkinn bátur og fólk á svamli

Ekki mátti tæpara standa þegar strandgæslan kom að tveimur bátsskriflum í nauð, með samtals 86 manns innanborðs og utan. Annar báturinn var byrjaður að sökkva þegar að var komið og margir sem verið höfðu um borð á svamli í sjónum í kringum hann. Blessunarlega tókst að koma öllum um borð í björgunarskipið.

Nokkru vestar, á Gíbraltarsundinu, var svo 55 manns bjargað í tveimur aðgerðum; 52 af einum og sama bátnum en hinum þremur af einum kajak, sem þeir hugðust róa yfir sundið.

Nær 700 dáið eða horfið á Miðjarðarhafinu í ár

Allt flóttafólkið sem bjargað var til Spánar í dag er talið koma frá Afríkulöndum sunnan Sahara, en alls hafa um 11.000 flóttamenn komist yfir Miðjarðarhafið til Spánar það sem af er þessu ári. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir næsta víst að ríflega 200 hafi drukknað á þessari leið á sama tíma, og mögulega fleiri.

Staðfest dauðsföll og mannshvörf á Miðjarðarhafinu öllu eru 682 á þessu ári og í allt hafa um 31.600 flóttamenn siglt frá Afríku til Evrópu frá áramótum.