14 börn létu lífið í fjöldamorði

17.02.2020 - 01:25
Byssuhlaup.
 Mynd: RÚV
22 þorpsbúar voru myrtir af sveit vopnaðra manna í norðvesturhluta Kamerún á föstudag. 14 börn voru meðal hinna látnu að sögn mannúðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, OCHA. 

James Nunan, starfsmaður OCHA, segir í samtali við AFP fréttastofuna að þunguð kona hafi verið meðal hinna látnu, og að níu af börnunum fjórtán sem voru drepin hafi verið undir fimm ára aldri. 

Nunan hefur umsjón með starfsemi OCHA í norðvestur- og suðvesturhluta Kamerún, þar sem enskumælandi minnihluti íbúa býr. Aðskilnaðarsinnar í héruðunum hafa átt í átökum við stjórnvöld síðustu þrjú ár. 

Kenna stjórnvöldum um árásina

Annar stærstu stjórnarandstöðuflokkanna í landinu, Hreyfing endurfæðingar Kamerúns, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem einræðistilburðum stjórnvalda og yfirmanni öryggis- og varnarliðs landsins var kennt um árásina. Agbor Malla, einn forsprakka aðskilnaðarsinna, tók undir þau orð á Facebook og sakaði herinn um að hafa drepið þorpsbúana. 

Átökin á milli aðskilnaðarsinna í enskumælandi héruðum og stjórnarhersins hefur kostað þrjú þúsund mannslíf. Yfir 700 þúsund hafa orðið að flýja heimili sín. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV