Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

130 deyja daglega vegna ofneyslu ópíóíða

28.05.2019 - 19:23
Mynd: AP / AP
Oklahoma varð í dag fyrsta ríkið sem þingfestir mál gegn lyfjafyrirtæki vegna ópíóíða. Að meðaltali deyja 130 Bandaríkjamenn á dag úr ofneyslu slíkra lyfja.

Réttarhöld hófust í dag yfir lyfjarisanum Johnson & Johnson í Oklahoma í Bandaríkjunuma, en yfir tvö þúsund viðlíka málsóknir eru í undirbúningi vestra. Saksóknari Oklahoma, Mike Hunter, leiðir málsóknina með stuðningi margra sem misst hafa einhvern nákominn úr ofneyslu ópíóíða. 

Talið er að um hundrað og þrjátíu Bandaríkjamenn deyi á degi hverjum vegna ofneyslu ópíóíða.

Undir skilgreininguna á ópíóíðum fellur heríóin, en einnig ýmis lyfseðilsskyld lyf á borð við fentaníl. Málsóknin byggist meðal annars á því að með óábyrgri markaðssetningu á gríðarlega ávanabindandi efnum, þar sem lítið hafi verið gert úr skaðsemi þeirra, beri lyfjafyrirtækin mikla ábyrgð á ópíóíðafaraldrinum í Bandaríkjunum, en vegna hans hefur forseti Bandaríkjanna lýst yfir neyðarástandi. 

Það eru rétt um tvö ár síðan Hunter höfðaði mál gegn þremur lyfjafyrirtækjum fyrir hönd Oklahoma. Samið hefur verið við tvö þeirra um greiðslur til ríkisins. Purude Pharma greiddi ríkinu rúma þrjátíu og þrjá milljarða íslenskra króna í skaðabætur. Samkomulag náðist svo á sunnudag við Teva Pharmaceuticals, sem keypti íslenska lyfjafyrirtækið Actavis árið 2016, um greiðslur til ríkisins upp á á ellefta milljarð íslenskra króna. Þriðja fyrirtækið er svo Johnson & Johnson, og það mál var þingfest í dag. Talsmenn fyrirtækisins hafna ásökununum alfarið. 

Þótt Oklahoma sé fyrsta ríkið í Bandaríkjunum sem fer í mál við lyfjarisa vegna ópíóíða eru fleiri en tvö þúsund viðlíka málsóknir í gangi gegn lyfjafyrirtækjum víðsvegar um Bandaríkin. Fyrir stjórnvöldum í ríkinu vakir að nýta sektargreiðslur lyfjafyrirtækjanna til að stemma stigu við ópíóíðafaraldrinum.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV