Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

120% álag um jól og áramót

06.03.2020 - 17:00
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Vaktahvati og breytingar á vaktavinnuálagi er meðal þess sem er að finna í nýju samkomulagi um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki. Í sumum tilfellum verður mögulegt að stytta vinnuvikuna í 32 stundir. Vaktahvati getur numið 12,5% af launum og vaktaálag um jól og áramót verður 120%.

Sami vinnutími, hærri laun

Það er mat flestra sem nú hafa setið við samningaborðið í næstuð eitt ár að samkomulagið sé stórt skref sem hafi í för með sér miklar breytingar fyrir vaktavinnufólk. Meginatriðið er að vinnuvikan styttist úr 40 stundum í 36. Það þýðir að hjá þeim sem standa átta tíma vaktir fækkar vöktum um tvær. Fjöldi vakta á mánuði getur mest verið 19. Þrjátíu og sex tímar á viku verða því 100% starf. Sá sem hefur verið í 90% starfi er kominn í fullt starf ef hann heldur áfram að vinna 36 tíma. Hann fær hærri laun fyrir sama vinnuframlag. Þetta á í raun við um alla sem eru í hlutastarfi og hvatt er til að þeir hækki launin með að auka vinnuhlutfallið án þess að vinna lengri vinnutíma. Markmið er að meðalstarfshlutfall aukist um 12 prósentustig.

Breytt vaktaálag

Vaktavinnuálagið breytist. Það er nú annars vegar 33,3% af dagvinnukaupi í kvöldvinnu á virkum dögum og 55% í nætur- og helgarvinnu. Í nýja samkomulaginu bætast við tvær álagstölur 65% og 75%. Álagið á virkum dögum á kvöldin verður áfram 33,3% og það verður áfram 55% á föstudagskvöldum og á laugardögum og sunnudögum frá morgni til miðnættis. Hins vegar verður álagið 65% á næturvöktum virka daga og fer í 75% um helgar á nóttinni. Stórhátíðarálagið verður áfram 90% en þó er breyting sem gæti glatt einhverja. Hundrað og tuttugu prósenta álag verður frá fjögur og fram að miðnætti aðfangadag og gamlársdag og frá miðnætti til átta að morgni jóladag og nýársdag. Bakvaktaálag verður áfram eins og það hefur verið.

Vinnuvikan niður í 32 stundir

Þá er það nýtt að vinnuskyldustundir vaktavinnufólks sem stendur vaktir á kvöldin og um helgar fá aukið vægi. Klukkutíminn hjá þeim sem eru með 33,3% og 55% álag reiknast 63 mínútur. Klukkutíminn fer hins vegar í 72 mínútur hjá þeim sem eru á þyngri vöktum 65 og 75%. Vinnuskylda hjá þeim sem eru í fullu starfi getur með þessu álagi farið niður í 32 stundir. Þrjátíu og tvær stundir á viku geta því verið fullt starf.

Vaktahvati og tvenns konar yfirvinna

Þá er loks gert ráð fyrir því sem kallað er vaktahvati. Í mjög stuttu máli greiðist hann af mánaðarlaunum í samræmi við fjölbreytileika og fjölda vakta. Hann fer í 12,5 prósent fyrir 17 til 19 vaktir á mánuði. Vaktahvatinn er mismunandi og lægstur getur hann verið 2,5%. Til að fá vaktahvata þarf starfsmaður að standa vaktir í tveimur til fjórum tegundum vakta 14 sinnum eða oftar.

Það er gert ráð fyrir tvenns konar yfirvinnu, eitt og tvö. Lengi var þrefað um hlutfallið í yfirvinnu 1 sem átti að vera 0,85% af launum. Yfirvinna eitt er greidd frá átta að morgni fram til klukkan fimm síðdegis. Niðurstaðan er að hlutfallið verður 0,9385. Hlutfall næturvinnu verður áfram það sama.

Kostar pening

Þessar breytingar hafa kostnað í för með sér bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Spegillinn hefur áður sagt frá því að kostnaður ríkisins gæti verið á bilinu 3-4 milljarðar. Almennt hækkar launakostnaður um 7,1%. Hann tengist fyrst og fremst því að styttingin kallar á meiri mönnun vakta. Það sem kemur á móti er meðal annars að ekki verður greitt sérstaklega fyrir kaffitíma. Vaktavinnufólk hefur fengið greiddar 25 mínútur aukalega fyrir hverja vakt. Þá er gert ráð fyrir að hlutfall yfirvinnu lækki með nýja skipulaginu. Það á að taka gildi 1. maí 2021 eða á næsta ári.

Markmiðið með breytingunum er að stuðla að betri heilsu og öryggi vaktavinnufólks og auka frítíma þess, til dæmis með fjölskyldum sínum. Breytingarnar eiga að gera vaktavinnustörf eftirsóknarverðari.