110 ár eru í dag liðin frá fæðingu Halldórs Laxness. Halldór fæddist að Laugavegi 32 í Reykjavík en fluttist ungur að árum í Mosfellssveit með foreldrum sínum. Í tilefni fæðingarafmælis skáldsins eru ýmsir atburðir á döfinni.
Kvikmyndahátíðin Laxness í lifandi myndum er haldin í Bíó Paradís. Þar verða sýndar myndir sem eru byggðar á verkum Halldórs. Hátíðin var opnuð í kvöld þegar kvikmyndin Brekkukotsannáll var sýnd. Á Landsbókasafninu var svo í dag opnuð sýningin Bernska skálds í byrjun aldar. Þar eru til sýnis munir, skjöl og bækur frá því að Halldór var barn í Mosfellssveit.