Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

11 milljarða rannsóknarmiðstöð við Kröflu

18.04.2017 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: Landsvirkjun
Í undirbúningi er alþjóðlegt verkefni í eldfjallarannsóknum þar sem bora á niður á bergkviku við Kröflu. Jarðvísindamenn frá 9 löndum hyggjast safna 11 milljörðum króna til að koma þar upp miðstöð langtímarannsókna. Þeir vilja meðal annars auka skilning á jarðskorpunni og eldgosum.

Verkefnið kallast „Krafla Magma Testbed“ og þar sameinast sérfræðingar frá 27 rannsóknarstofnunum, háskólum og fyrirtækjum. Þeir helstu frá jarðvísindastofnunum í Bretlandi, Bandaríkjunum og Ítalíu, ásamt Háskóla Íslands. Einnig koma að þessu sérfræðingar frá Nýja Sjálandi, Þýskalandi, Írlandi, Kanada og Frakklandi.

Einstakar aðstæður við Kröflu

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur á Norræna eldfjallasetrinu hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að forsaga verkefnisins sé Íslenska djúpborunarverkefnið við Kröflu árið 2009. Þar var borað niður í kviku á aðeins tveggja kílómetra dýpi. „Það er einstakt tækifæri í Kröflu til að setja á fót alþjóðlega rannsóknarmiðstöð í kviku- og eldfjallafræði. Vegna þess að við þekkjum staðsetningu á kviku á grunnu dýpi.“ 

Nýta þekkinguna frá Kröflu til að skilja önnur eldfjöll

„Áhuginn er að nota lærdóm úr Kröflu til að skilja eldfjöll annarsstaðar í heiminum. Og þar með að draga úr áhrifum á eldgosum og hættum vegna eldvirkni á ýmsum stöðum í heiminum,“ segir Freysteinn, en talið er að um 800 milljónir manna búi í um 100 kílómetra fjarlægð frá virkum eldstöðvum. „Við teljum í rauninni að líkönin sem við höfum af eldfjöllum séu tiltölulega frumstæð. Við viljum reyna að gera betur og gera beinar mælingar á því hvar kvika er. Við þurfum til dæmis að þróa jarðeðlisfræðilegar aðstæður til að greina rætur eldfjalla betur, hvar kvika liggur. Og það væri einn hluti af þessu verkefni að bera saman óbeinar mælingar hvar kvika liggur, til dæmis með jarðskjáftamælingum og mælingum á jarðskorpuhreyfingum og tengja það beint við þann lærdóm sem við getum dregið af því að bora beint niður að kvikunni aftur.“    

Verði komið af stað árið 2020

Og með því að bora aftur niður í þessa kviku og taka sýni af mörkum jarðskorpu og kviku megi svara brýnum spurningum í eldfjalla- og jarðhitafræði. Meginverkefnið eins og er segir Freysteinn þó vera leit að fjármagni. Markmiðið er að afla allt að 100 milljóna dollara, eða 11 milljarða króna. „Draumurinn er að þetta verði komið af stað 2020. Við erum að leita að fjármagni beint frá mörgum aðilum víða um heim. Við viljum virkja þennan rannsóknarhóp, sem kemur að þessu, til að leita fjámagns í sínum löndum. Og það ferli er hafið og er í gangi.“ 

Yrði aðgangur að kviku inni í rótum eldstöðvar

„Þetta er hugsað til áratuga,“ segir Freysteinn. „Byrjunin væri að bora eina nýja holu þarna niður að kvikunni, ganga þannig frá henni að það væri hægt að gera ákveðnar tilraunir í henni og mælingar. Framhaldið væri að þarna væri nánast aðgangur að kviku inni í rótum eldstöðvar og hægt væri að gera beinar mælingar þar og auka þannig skilning á innviðum eldstöðva.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV