Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

102 ára keppandi á Landsmóti UMFÍ

Mynd: RÚV / RÚV

102 ára keppandi á Landsmóti UMFÍ

30.06.2019 - 09:00
Elsti keppandinn á Landsmóti UMFÍ í Neskaupstað er 102 ára gamall og hefur í seinni tíð hrifist af golfi. Á mótinu sem er fyrir 50 ára og eldri keppa um helgina um 300 keppendur af öllu landinu í greinum sem reyna á alls kyns hæfileika.

Pönnukökubaksturinn er hvað vinsælastur hjá áhorfendum. Keppendur byrja allir með 150 grömm af hveiti og svo kemur í ljós hvað verður úr því. Dómarar fylgjast grannt með og dæma líka hvernig gengur að halda hreinu í kringum pönnuna. Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir frá HSK Selfossi er þrautreynd í þessari grein. 

Ingibjörg segir að galdurinn sé að hafa gaman af þessu. Finna þurfi góða uppskrift og fylgja henni. „Bara um að gera að hafa gaman. Þetta er ekkert nema skemmtilegt."

Elsti keppandinn er heimamaðurinn Stefán Þorleifsson, hann verður 103 ára í ágúst. Stefán er fyrrum íþróttakennari og hreyfir sig á hverjum morgni. Hann er nýhættur að stunda skíði og sund en hefur snúið sér að golfi og var í gær að búa sig undir keppni í pútti sem fer fram í dag. 

Stefán segir golf afar þægilega íþrótt fyrir hvern sem er, það þurfi ekki að hafa mikla líkamlega getu til að hafa yndi af því að stunda hana. „Maður er alltaf að glíma við sjálfan sig að gera aðeins betur en síðast. Maður veit alveg við hvað maður á að miða, við hve mörg högg maður á að miða til þess að maður gæti mælt að það sé góður hringur."

Í spilararnum hér að ofan má sjá svipmyndir frá mótinu í gær og viðtal Rúnars Snæs Reynissonar við Stefán Þorleifsson. 

Fyrir nokkrum árum hittum við líka Stefán á skíðum í Oddsskarði. Þá var hann 97 ára. Það viðtal má sjá hér.