Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

100.000 laxar þurftu ekki að drepast

20.02.2020 - 10:10
Mynd: RÚV / RÚV
570 tonn af eldisfiski sem drapst nýlega hjá Arnarlaxi í kvíum eiga ekki að hafa teljandi áhrif á afkomu fyrirtækisins. Forðast hefði mátt laxadauðann ef slátrun hefði farið fram í desember. Koma erlendra sláturskipa eins og Norwegian Gannet er veikur hlekkur í smitvörnum í laxeldi, segir eftirlitsmaður Matvælastofnunar.

Þeim tæplega 100 þúsund fiskum sem drápust í kvíum Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði hefur nú verið komið úr kvíunum og er nú unnið að verkun. Norska sláturskipið Norwegian Gannet kom til landsins í síðustu viku til þess að veita liðsinni. Búist er við að skipið haldi á brott aftur í lok næstu viku en vinnan haldi þó áfram fram í mars.

Eðlileg afföll í alþjóðlegum samanburði

Laxadauðinn nemur um fjórum prósentum af þeim fisk sem Arnarlax er með í sjókvíum. Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður fyrirtækisins segir þetta atvik ekki eina að hafa teljandi áhrif á afkomu.

„Í eldinu sem slíku eru afföll og það á væntanlega við hvaða matvælaframleiðslu sem er að menn gera ráð fyrir afföllum. Í Noregi í fyrra var þörungablómi og afföll hafa þar kannski verið upp undir 20 prósent. Þannig ég held að menn geti gert ráð fyrir almennt í þessum iðnaði milli fimm og 20 prósent afföllum,“ segir hann.

Lax drapst á sama stað og af sömu ástæðu 2018

Dauðinn stafaði af því að sjávarhiti lækkaði, fiskurinn leitaði neðar í kvíarnar og nuddaðist við nótina. Þá myndaðist sár á fisknum sem síðan dró hann til dauða. Samkvæmt Matvælastofnun er þetta ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir. Í ársbyrjun 2018 drapst einnig lax á sama stað og af sömu ástæðu.

Fiskurinn var settur í kvíarnar síðastliðið vor. Kjartan telur að fisknum hefði verið slátrað í desember, áður en sjórinn kólnaði í kjölfar slæms tíðarfars, hefði mátt komast hjá þessu.

„Almennt fyrir greinina getum við samt séð að það að hafa umfram afkastagetu. Þetta þekkja Íslendingar úr útgerðinni. Það að hafa umfram afkastagetu til að geta hanterað uppákomu eins og þessa, það þurfum við að skoða nánar,“ segir Kjartan.

Segir komu skipa frá útlöndum veikan hlekk í smitvörnum

Landssamband veiðifélaga hefur vakið máls á því að erfitt sé að tryggja að stór skip frá útlöndum eins og Norwegian Gannet séu sótthreinsuð og þau geti því borið sjúkdóma í íslenskan lax.

Gísli Jónsson, eftirlitsmaður Matvælastofnunar, viðurkennir í samtali við fréttastofu að þar sé veikur hlekkur í smitvörnum. Skipið hafi þó farið í gegnum áhættumat og töluverður sótthreinsibúnaður sé um borð. Til viðbótar hafi enginn fiskur verið í skipinu í ellefu daga áður en komið var til landsins.

Norska sláturskipið Norwegian Gannet. Kom til landsins í febrúar 2020 til að aðstoða Arnarlax við slátrun eftir 570 tonna laxadauða.
Í Norwegan Gannet eru 40 til 50 manns sem vinna nú að slátrun