Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

1000 hjúkrunarfræðingar starfa við annað

15.06.2018 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Helgason, sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs félags hjúkrunarfræðinga, segir að um eitt þúsund hjúkrunarfræðingar vinni við annað en hjúkrun. Í nýrri könnun sem félagið lét gera segir stór hluti að álag sé of mikið og launin of lág.   

Meira er um lokanir á Landspítalanum í sumar en fyrri ár og þjónustuskerðingar vegna sumarleyfa á landspítalanum eiga eftir að vara lengur en í fyrra. Sigríður Gunnarsdóttir, famkvæmdastjóri hjúkrunar sagði í fréttum að mikill skortur sé á hjúkrunarfræðingum og að bregðast þurfi við því með því að bæta kjör hjúkrunarfræðinga og auka nýliðun í starfinu.

Gunnar segir að félagið hafi kannað fjölda starfandi hjúkrunarfræðinga í lok árs 2016 sem birt var í byrjun árs 2017. 

„Og þá kom í ljós að það er eitthvað um 1000 hjúkrunarfræðingar sem eru að starfa við eitthvað annað en hjúkrun. Þetta eru þá aðilar sem við getum einfaldlega ekki staðsett. Þeir geta verið félagsmenn í öðrum félögum eða búsettir erlendis.“  

Ekki sé vitað nákvæmlega hvar hjúkrunarfræðingarnir starfa en vitað er að þeir eru t.d. eftirsóttir hjá flugfélögum. „En nákvæmar tölur eins og hjá flugfélögunum höfum við ekki. Við höfum leitað eftir þessum upplýsingum en ekki fengið.“ 

Heildarfjöldi hjúkrunarfræðinga með starfsleyfi á landinu er í kringum 4000 og starfandi hjúkrunarfræðingar um þrjú þúsund. Félag hjúkrunarfræðinga lét gera könnun meðal starfandi hjúkrunarfræðinga á viðhorfi, ánægju og ýmsum þáttum sem snerta starfið. Niðurstöðurnar verða birtar í næsta tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga.  Svarhlutfall var 74% . Álag var hjúkrunarfræðingunum efst í huga.

„Í þessari könnun kemur fram að það er mjög stór hluti hjúkrunarfræðinga sem telur álag í starfi vera of mikið eða í kringum 83 % og eins eru það launin.“    

Um áttatíu prósent voru fremur eða mjög óánægðir með laun.  
Um 2000 hjúkrunarfræðingar starfa hjá ríkinu. Gunnar segir að oftar en ekki sé borið við að það kosti of mikla peninga að hækka laun hjúkrunarfræðinga.

„Það kostar sannarlega mikla peninga að hækka laun hjúkrunarfræðinga en við teljum líka að það kosti talsvert mikla peninga að hafa ástandið innan heilbrigðiskerfisins með þeim hætti sem það er núna.“