Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

100 milljóna bónusar „lykta af sjálftöku“

25.08.2016 - 18:21
Áform eignarhaldsfélagsins Kaupþings að greiða lykilstarfsmönnum um 100 milljónir í bónus lykta af sjálftöku. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Slíkir samningar séu fullkomlega óeðlilegir árið 2016.

Eignarhaldsfélagið Kaupþing, sem er langstærsti hluthafinn í Arion banka, stefnir að því að greiða tuttugu lykilstarfsmönnum sínum um og yfir 100 milljónir króna í bónusa, eða samtals um einn og hálfan milljarð króna. Þetta er háð því að þeim takist að hámarka virði óseldra eigna félagsins. Bónuskerfið verður lagt fyrir aðalfund félagsins sem fer fram í næstu viku. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, er ekki hrifinn af slíkum hugmyndum.

„Ég er ótrúlega hissa á að við skulum verða vitni að svona samningum árið 2016. Þegar maður skoðar hvernig þetta fyrirtæki hefur orðið til, meðal annars fyrir milligöngu dómstóla vegna þess að menn gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar, og sér það hvernig þessu fyrirbæri er stjórnað og hverjir eru hluthafar þarna, og sér síðan að samningar eru gerðir við lykilstjórnendur um að menn geti fengið allt að 100 milljónir í bónus, þá finnst manni allt þetta fyrirbæri sem Kaupþing er, og þessir samningar, hreinlega lykta af sjálftöku. Það er ekkert hægt að komast hjá því,“ segir Bjarni.

Þú beittir þér fyrir breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem takmarkar bónusa um 25% af árslaunum, Kaupþing fellur ekki undir þessi lög, er þeim þá ekki í sjálfsvald sett hvað þeir gera í þessum efnum?

„Það er í sjálfu sér þannig í öllum fyrirtækjum að það eru engar sérstakar reglur, nema fyrir fjármálafyrirtæki sem starfa á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki. Menn geta gert samninga um bónusgreiðslur. En mín lífssýn hefur alltaf gengið út á það að slíkir samningar væru eðlilegir ef menn væru að leggja eitthvað alveg sérstakt af mörkum. Það er ekkert að því að menn hagnist í þessu samfélagi ef menn hafa tekið áhættu, og uppskera í samræmi við þá áhættu eða það fjármagn sem menn lögðu undir. En þegar menn taka enga áhættu, eru bara að mæta í vinnuna, og eru að semja við jafnfurðuleg fyrirbæri og þessar skeljar af gömlu bönkunum eru í einhverju svona lokuðu mengi, þá verður allt málið að skoðast í öðru ljósi. Þess vegna kemur strax upp í hugann orðið „sjálftaka“ þegar maður sér svona niðurstöðu.“

Komast ekki hjá launaskatti

Finnst þér að félagið ætti að hætta við þessa bónusa eða lækka þá?

„Það er náttúrulega þannig með þessi félög að þótt það sé í raun og veru búið að koma eignarhaldinu í hendurnar á gömlu kröfuhöfunum, þá ráða menn sér að miklu leyti sjálfir. En þetta eru draugar fortíðar, þessi félög, og kannski er þetta eitt merki um að það gildi ekki sömu lögmál um svona draugabanka. Venjulega þurfa fyrirtæki að svara gagnvart sínum hluthöfum sem eru fjárfestar, en þarna hafa menn endað sem fjárfestar eða hluthafar án þess að hafa nokkru sinni ætlað sér það. Það gerist í gegnum ferli hjá dómstólum og í nauðasamningum fyrir rest. En þessi mál geta menn tekið upp á fundum og það ætti kannski að láta á það reyna hvort það gerist. En það breytir ekki minni tilfinningu, þegar maður horfir á svona mál, að manni finnst þetta fullkomlega óeðlilegt.“

Getur þú eða ætlar þú eitthvað að beita þér í þessu?

„Ég er í sjálfu sér ekki með neinar heimildir til að stinga mér inn í svona mál. Það sem við getum kannski aðeins huggað okkur við er að á undanförnum árum hefur lagaumhverfinu verið breytt þannig að menn komast ekki hjá því að af svona gjörningum er greiddur launaskattur. Það hefur ekki alltaf verið þannig,“ segir Bjarni.

Davíð Stefánsson, upplýsingafulltrúi eignarhaldsfélagsins Kaupþings, sagði í samtali við fréttastofu í gær að félagið ætlaði ekki að tjá sig um málið.