Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

1 af 5 börnum verður fyrir kynferðisofbeldi

09.06.2019 - 15:27
Mynd með færslu
Nuuk. Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Eitt af hverjum fimm börnum á Grænlandi verður fyrir kynferðisofbeldi. Tveir grænlenskir þingmenn, sem eru nýkjörnir á danska þingið, segja ofbeldið greypt í grænlenska menningu og vilja að stofnaður verði neyðarsjóður til aðstoðar þolendum kynferðisofbeldis. 

Kynferðisofbeldi gegn börnum er alvarlegt vandamál á Grænlandi og hefur verið í áratugi.

Samkvæmt tölum frá danska landlæknisembættinu hefur þriðjungur barna sem fæddist á tíunda áratugnum þurft að búa við heimilisofbeldi og mikla áfengisneyslu foreldra. Þessar tölur voru birtar í maí, áður en boðað var til þingkosninga í Danmörku, og þá lagði Søren Espersen, talsmaður Danska þjóðarflokksins í málefnum Grænlands, til að Grænlendingar yrðu sviptir forræði í félagsmálum, og grænlensk börn sem beitt væru kynferðisofbeldi yrðu tekin frá foreldrum sínum og sett í fóstur í Danmörku.

Illa tekið á Grænlandi

Þessar hugmyndir mæltust illa fyrir á Grænlandi og nú hafa þingmenn, sem eru nýkjörnir á danska þingið fyrir hönd Grænlands, lagt til að stofnaður verði neyðarsjóður til aðstoðar þeim sem verði fyrir ofbeldi og danskir sérfræðingar fengnir til aðstoðar. Þær Aaja Chemnitz Larsen og Aki-Mathilda Høegh-Dam segja að eitt af hverjum fimm börnum verði fyrir kynferðislegu ofbeldi og þetta sé fast í menningunni á Grænlandi.

Aðstoð frá Danmörku þurfi til að snúa þessari þróun við, því Grænlendingar hafi ekki bolmagn til þess. Þær krefjast þess að Mette Frederiksen, leiðtogi Jafnaðarmanna sem er langlíklegust að verða næsti forsætisráðherra Danmerkur, bregðist við og auki til muna félagslegan stuðning danska ríkisins við grænlensk stjórnvöld svo forða megi næstu kynslóðum frá ofbeldi sem hafi tíðkast í grænlensku samfélagi alltof lengi.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV