Erlent

Sturgeon boðar lögmæta atkvæðagreiðslu um sjálfstæði
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, heitir því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins fái hún og Skoski þjóðarflokkurinn umboð til þess í skosku þingkosningunum í maí. Efnt verði til atkvæðagreiðslunnar hvort sem ríkisstjórn Borisar Johnsons samþykkir það eða ekki. Áætlun þar að lútandi var kynnt á flokksþingi Skoska þjóðarflokksins í gær.
25.01.2021 - 04:14
Fjölmargar kínverskar herþotur í taívanskri lofthelgi
Varnarmálaráðuneyti Taívans segir kínverska flugherinn hafa sent stórar sveitir herþotna langt inn í taívanska lofthelgi tvo daga í röð. Í yfirlýsingu ráðuneytisins er fullyrt að átta kínverskar sprengjuþotur sem hannaðar eru til að bera kjarnavopn, fjórar orrustuþotur og ein kafbátaleitarvél hafi flogið inn í lofthelgina á laugardag. Á sunnudag voru það svo tólf kínverskar orrustuþotur, tvær kafbátaleitarvélar og ein njósnavél sem rufu lofthelgina.
25.01.2021 - 03:49
Mexíkóforseti með COVID-19
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, tilkynnti í dag að hann hefði greinst með COVID-19. Einkennin væri þó væg enn sem komið er, skrifaði forsetinn, sem sagði frá veikindunum á samfélagsmiðlum. „Því miður þarf ég að greina ykkur frá því að ég er smitaður af COVID-19. Einkennin eru væg en læknismeðferð er þegar hafin,“ skrifaði forsetinn, „og eins og alltaf, þá er ég bjartsýnn.“
Hundruðum bjargað á Miðjarðarhafi
Yfir 370 manns sem bjargað var um borð í björgunarskipið Ocean Viking undan ströndum Líbíu á síðustu dögum fá að fara í land á Sikiley. Hjálpar- og mannúðarsamtökin SOS Mediterranee, sem gera björgunarskipið út, greindu frá þessu á Twitter í kvöld. „Mikill léttir um borð í kvöld þar sem Ocean Viking var heitið örugg höfn í Augusta á Sikiley," skrifar talsmaður samtakanna, sem segir að skipið muni að líkindum leggjast að bryggju í fyrramálið. Ítalska strandgæslan hefur þó ekki staðfest þetta enn.
25.01.2021 - 01:18
Biden framlengir ferðabann til Bandaríkjanna
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hyggst framlengja bann við ferðum annarra en bandarískra ríkisborgara til Bandaríkjanna frá Brasilíu, Bretlandi og öllum eða flestum Schengen-ríkjum. Þá tekur bannið líka til farþega frá Suður-Afríku og allra þeirra sem nýlega hafa verið í Suður-Afríku, jafnvel þótt þau ferðist frá ríkjum sem ekki eru á bannlistanum. Markmiðið er að stemma stigu við útbreiðslu nýrra og að líkindum meira smitandi afbrigða af COVID-19.
25.01.2021 - 00:41
de Sousa endurkjörinn með miklum meirihluta atkvæða
Marcelo Rebelo de Sousa, forseti Portúgals, var endurkjörinn í dag með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þegar búið var að telja 98 prósent atkvæða hafði de Sousa, sem er frjálslyndur miðjumaður úr flokki Sósíaldemókrata, fengið 61,6 prósent þeirra. Þar sem hann hlaut hreinan meirihluta atkvæða þarf ekki að kjósa á milli tveggja efstu. Sósíalistinn Ana Gomes var í öðru sæti með 12,2 prósent og þjóðernissinninn Andre Ventura í því þriðja, með 11,9 prósent.
24.01.2021 - 23:20
Metfjöldi flóttamanna til Kanaríeyja
Metfjöldi flóttamanna kom til Kanaríeyja á síðasta ári frá Afríku þar sem Evrópusambandið hefur lokað öðrum leiðum. Íslendingur á Tenerife óttast að þeir hafi litla möguleika á góðu lífi þar og stjórnmálafræðingur býst við að flestir þeirra verðir sendir aftur til síns heima. 
24.01.2021 - 19:14
Tugir mótmælenda handteknir í Hollandi
Mótmæli gegn útgöngubanni brutust út víða í Hollandi í dag. Í gærkvöldi tóku gildi reglur um útgöngubann frá klukkan níu á kvöldin til klukkan hálffimm um nætur. Útgöngubannið gildir til 10. febrúar.
24.01.2021 - 19:08
Svíar banna ferðir frá Noregi
Sænsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að bann við ferðum til landsins frá Noregi taki gildi á miðnætti í kvöld, vegna hraðrar útbreiðslu kórónuveirunnar í Noregi. Bann við ferðum frá Danmörku og Bretlandi hefur verið í gildi í Svíþjóð frá því í lok desember. Komubannið frá öllum ríkjunum gildir til 14. febrúar.
24.01.2021 - 17:06
Myndskeið
Handteknir fyrir að kveikja í brúðu í líki Frederiksen
Um eitt þúsund komu saman í Kaupmannahöfn í gærkvöldi til að mótmæla sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda í Danmörku. Þrír voru handteknir fyrir að brenna dúkku sem var í líki Mette Frederiksen, forsætisráðherra landsins.
24.01.2021 - 16:35
77 greinst með „suður-afríska afbrigðið“ í Bretlandi
77 hafa greinst með hið svokallaða suður-afríska afbrigði kórónuveirunnar í Bretlandi. Afbrigðið, sem er talið meira smitandi en önnur, hefur nú greinst í að minnsta kosti tuttugu löndum. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
24.01.2021 - 16:24
Hópsmit á sjúkrahúsi í Berlín
Vivantes Humboldt sjúkrahúsið í Berlín hefur hætt að taka við nýjum sjúklingum eftir að hópsmit af bresku afbrigði kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum kom upp á spítalanum.
24.01.2021 - 12:45
Fyrsta samfélagssmitið á Nýja Sjálandi í tvo mánuði
Heilbrigðisyfirvöld á Nýja Sjálandi tilkynntu í dag að þar hefði í gær greinst kórónuveirusmit utan sóttkvíar í fyrsta sinn síðan 18. nóvember. Sett hefur verið af stað víðtæk smitrakning í norðurhluta landsins.
24.01.2021 - 12:26
Ellefu bjargað úr námu í Kína
Tekist hefur að bjarga ellefu námumönnum sem lokuðust inni í námu í Shandong-héraði í Austur Kína fyrir tveimur vikum.
24.01.2021 - 10:50
Heimskviður
Glíma við tvenns konar faraldra, COVID og mafíuna
Ein umfangsmestu réttarhöld í sögu Ítalíu hófust á dögunum. Vitnin verða hátt í þúsund talsins og sakborningarnir eru á fjórða hundruð, allir sakaðir um aðild að mafíustarfsemi. Hin rótgróna glæpastarfsemi hefur gert baráttuna við kórónuveirufaraldurinn enn erfiðari í suðurhluta Ítalíu.
24.01.2021 - 08:20
Búið að bjarga sjö upp úr kínversku námunni
Tekist hefur að bjarga sjö þeirra tuttugu og tveggja námamanna sem lokuðust inni í námu í Shandong-héraði í Austur Kína fyrir tveimur vikum og vonir standa til að fjórum til viðbótar verði bjargað í dag. Kínverska ríkissjónvarpið CCTV greinir frá þessu. Maðurinn, sem var innilokaður á öðrum stað en þeir tíu félagar hans sem einnig hefur tekist að ná sambandi við, er afar veikburða eftir prísundina samkvæmt frétt CCTV og virðist ófær um gang.
24.01.2021 - 06:54
Erlent · Asía · Kína
Yfir 25 milljónir COVID-19 smita í Bandaríkjunum
Yfir 25 milljónir manna hafa nú greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum samkvæmt samantekt New York Times. Bandaríkjaforseti býst allt eins við því að farsóttin leggi fleiri en 600.000 Bandaríkjamenn í valinn áður en yfir lýkur.
24.01.2021 - 06:34
Polisario skaut eldflaugum að bækistöð Marokkóhers
Sjálfstæðishreyfing Vestur-Sahara, Polisario, gerði í nótt eldflaugaárás á Guergerat-svæðið á mörkum Marokkós og Máritaníu, þar sem Marokkóher hefur haldið úti varðstöð síðustu mánuði. Fréttastofa Saharawi-þjóðarinnar, SPS, greindi frá þessu í morgun. „Her Saharawi-þjóðarinnar skaut fjórum eldflaugum í áttina að Guerguerat,“ segir í fréttatilkynningunni, sem vitnar í liðsforingja í hersveitum sjálfstæðishreyfingarinnar.
24.01.2021 - 04:39
Egyptar hefja fjöldabólusetningu í dag
Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, tilkynnti í gær að fjöldabólusetning gegn COVID-19 myndi hefjast í landinu í dag, sunnudag. Bóluefnið sem notað verður er frá kínverska lyfjaframleiðandanum Sinopharm.
24.01.2021 - 04:08
Spánn
Bólusetningarhneyksli hrekur hershöfðingja frá völdum
Yfirhershöfðingi Spánarhers sagði af sér í dag eftir að upp komst að hann hafði verið bólusettur gegn COVID-19 þótt hann tilheyri engum forgangshópi í bólusetningaráætlun heilbrigðisyfirvalda. Hershöfðinginn, Migual Angel Villaroya, er einn af mörgum háttsettum spænskum embættismönnum sem hafa orðið uppvísir að því að svindla sér framfyrir röðina í bólusetningaraðgerðum stjórnvalda og vakið með því réttláta reiði almennings.
24.01.2021 - 02:45
Maduro boðar betri tíð í samskiptum við Bandaríkin
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, fagnar nýjum húsbónda í Hvíta húsinu í Washington og segist reiðubúinn að „snúa við blaðinu" í samskiptunum við Bandaríkjastjórn, sem einkenndust af mikilli spennu og fjandsemi á báða bóga í fjögurra ára valdatíð Donalds Trumps.
Öflugur jarðskjálfti við Suðurskautslandið
Kröftugur jarðskjálfti, 7,0 að stærð, varð norður af Suðurskautslandinu í kvöld. Yfirvöld í Chile gáfu út flóðbylgjuviðvörun fyrir Eduardo Frei-rannsóknarstöðina á Eyju Georgs Konungs undan norðurströnd Suðurskautslandsins, þar sem um 150 manns dvelja að jafnaði á þessum tíma árs. Var fólk hvatt til að forða sér frá ströndinni og upp í hlíðar eyjunnar þar til hættan er liðin hjá.
24.01.2021 - 02:29
Mótmæli í Kaupmannahöfn þróuðust út í óspektir
Óformleg hreyfing manna sem kalla sig Men in Black blés til mótmæla gegn sóttvarnaaðgerðum danskra stjórnvalda í Kaupmannahöfn í kvöld, öðru sinni, og heimtuðu „Frelsi fyrir Danmörku“. Mótmælin hófust klukkan 18 að staðartíma og voru að mestu friðsamleg til að byrja með, segir í frétti Danmarks Radio, en það átti eftir að breytast.
24.01.2021 - 00:19
Íslamistar felldu 11 bardagamenn hliðholla Íraksstjórn
Ellefu liðsmenn bardagasveitar Hashed al-Shaabi-hreyfingarinnar, sem nýtur stuðnings og velvildar Íraksstjórnar, voru felldir þegar sveit þeirra var gerð fyrirsát í kvöld. Tíu til viðbótar særðust í árásinni, sem heimildarmenn AFP innan hreyfingarinnar segja vígamenn Íslamska ríkisins hafa gert.
23.01.2021 - 22:56
Hertari aðgerðir í Ósló og nágrenni
Norsk stjórnvöld gripu í skyndi til harðra aðgerða í Ósló og nágrenni í morgun vegna útbreiðslu breska afbrigðis COVID-19. Fjöldi Norðmanna dreif sig í áfengisverslanir til að ná sér í byrgðir áður en þeim var lokað.
23.01.2021 - 19:48