Sannleikurinn um víetnömsku veitingastaðina

Sprenging hefur orðið í fjölda Víetnama sem hafa komið til Íslands á undanförnum misserum. Stór hluti fólksins er á vegum kaupsýslumannsins Quangs Lés sem hefur verið handtekinn í stórfelldri mansalsrannsókn.

Í dimmu herbergi situr maður í skugga og segir sögu sína. Við köllum hann Blæ, því hann vill ekki þekkjast. Hann er einn starfsmanna Quangs Lé, sem einnig er þekktur sem Davíð Viðarsson, og hefur verið umsvifamikill kaupsýslumaður um nokkurra ára skeið. Hulunni var svipt af veldi hans og meintu mansali þegar lögreglan réðst til atlögu á þriðjudaginn. Blær er einn þeirra sem setið hefur fastur í neti Quangs.

„Ég greiddi atvinnuveitanda mínum 65 þúsund dollara þegar ég kom til landsins og aukalega 60 þúsund dollara þegar konan mín og börnin komu,“ segir hann í viðtali við Kveik. Það eru rétt um níu milljónir króna. Og Blær segir að allir sem komið hafa til landsins á vegum Quangs hafi greitt fyrir það.

Saga Blæs er því saga einhverra tuga Víetnama, jafnvel fleiri. En ólíkt þorra þeirra segist hann ekki lengur hræddur við Quang, þótt hann hafi verið það í upphafi. Ef hann væri hræddur kæmi hann ekki í viðtal.

Hvað varð til þess að Blær kom til Íslands?

„Framtíð barnanna minna og framtíð okkar fjölskyldunnar. Við vildum koma og prófa eitthvað nýtt. Í sannleika sagt er lífið á Íslandi gott en við vorum ekki heppin að fara þessa leið. Ég er undir miklu álagi, stressi og of það er þung byrði að bera að vinna fyrir hann.“

Að renna á lyktina af útrunninni matvöru

Þótt Quang Lé hafi verið umsvifamikill hafði almenningur tæpast heyrt minnst á hann fyrr en fréttist af því sem átti sér stað í kjallaranum í Sóltúni 20. Í lok september kom Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur þangað eftir að ábendingar bárust um að þar væru geymd matvæli án tilskilinna leyfa. Ræstingafyrirtæki í eigu Lé, Vy-þrif, var með kjallarann á leigu. Það sem við blasti kom Heilbrigðiseftirlitinu í opna skjöldu.

Meindýr áttu greiða leið inn í rýmið. Dauðar og lifandi rottur og mýs voru um allan kjallarann og rottuskítur og þvag. Við skoðun á matvælunum voru greinileg merki um að dýrin hefðu nagað sig í gegnum umbúðir, bæði sekki og kassa. Átján frystikistur voru fullar af ýmiss konar matvælum, kjöti, fiski og grænmeti.
Blær þekkir til þessa kjallara og segir Kveik frá því að hann hafa nokkrum sinnum komið þangað. „Þessi lager er ógeðslegur. Það eru aðeins útrunnar matvörur, mýs og  rottugangur.“ Hann segist hafa farið í kjallarann til að ná í vörur fyrir veitingastaðina: Pho Vietnamese og Wok On.

Ekki vildi Quang þó meina það, þetta væri gamall lager og maturinn ekki ætlaður til neyslu heldur hefði staðið til að farga honum. Heilbrigðiseftirlitinu þótti það ólíklegt, enda höfðu fimm tonn af þessum matvælum nýlega verið flutt til landsins. Ákveðið var að stöðva starfsemina, farga matnum – alls um tuttugu tonnum – og innsigla húsið.

Fregnir af útrunnum matvælum og rottum vöktu athygli, en fljótt varð ljóst að annað og alvarlegra væri þarna á kreiki. Vísbendingar voru um að fólk hefði dvalið í kjallaranum. Til dæmis fundust dýnur, koddar, matarílát og tjald ofan á hrísgrjónasekkjum. Heilbrigðseftirlitið vísaði málinu að lokum til lögreglu. Blær staðfesti í viðtali við Kveik að fólk hefði gist í kjallaranum. „Já, ég veit til þess að það hefur verið búið í þessum kjallara en ekki hvort það hafi verið nýlega.“

Ört stækkandi veldi

Quang Lé varð á nokkuð fljótt umsvifamikill í viðskiptum. Fyrstu ummerki reksturs hans á Íslandi eru frá árinu 2012, þá hafði hann opnað fyrsta víetnamska matsölustaðinn á Íslandi og rak fyrir verslunina Vietnam Market.
Og fleira bættist við:

Veitingastaðurinn Pho Vietnamese, sem er á fimm áberandi stöðum í Reykjavík og Wok On-keðjan sem er í eigu Quangs frá því í lok síðasta árs. Wok On var með útibú um allt land, meðal annars í verslunum Krónunnar en eftir rannsókn lögreglu var þeim samningi rift.

Ítalski staðurinn Fernandos á Tryggvagötu bættist við í fyrra en virðist hafa verið lokað skömmu síðar.

Quang á tvö hótel, Reykjavík Downtown Hotel á Skólavörðustíg og Kastala Guesthouse, í gamla Herkastala Hjálpræðishersins. Kaupverð herkastalans árið 2022 var 500 milljónir króna.

Quang Lé leigir svo aðra dýra húseign í miðbænum: Vesturgötu 2, þar sem Kaffi Reykjavík var áður til húsa, og hefur sagt að þar eigi að opna mathöll.

Blær segir fjölskyldu Quangs halda utan um reksturinn með honum. Þá sé bókari í lykilhlutverki og íslenskur lögfræðingur.

Kærasta, bróðir og faðir Quangs Lé eru öll skráð stjórnendur í fyrirtækjunum. Kærastan er skráð eigandi þriðjungshlutar í fyrirtækinu Reykjavík Mathöll ehf sem er skráð á Suðurlandsbraut 6 á  móti Shamsudin-bræðrunum Jónasi og Elíasi, sem eru þekktir í undirheimum og hafa ítrekað sætt rannsókn vegna fíkniefnamála, fjárdráttar og fjársvika, svo fátt eitt sé nefnt.

Vísbendingar um vinnumansal

ASÍ, stéttarfélög og lögregla hafa ítrekað fengið skilaboð, að því er virðist innan úr fyrirtækjum Quangs, þar sem bágri stöðu starfsfólksins er lýst. Saga Kjartansdóttir, lögfræðingur,  sinnir vinnustaðaeftirliti hjá ASÍ og segir naflausar ábendingar hafa borist í janúar 2023.

„Þar kom fram að fólk sem væri að vinna á Wok on og þessum Vietnam restaurant veitingastöðum. Fólki væri að vinna mjög langar vaktir, 12–14 klukkutíma á daga alla daga vikunnar. Það væri ekki að fá rétt laun. Auk þess kom fram í einum skilaboðunum að fólk hefði borgað margar milljónir til þess að fá starfið.“

Saga Kjartandsdóttir hjá ASÍ

Rétt eins og Blær lýsti í viðtalinu við Kveik. Eftir ábendingarnar höfðu ASÍ og stéttarfélögin reglulegt eftirlit á veitingastöðum í eigu Quangs. Adam Kári Helgason hjá kjarasviði Matvís, sem er félag iðnaðarmanna í matvæla- og veitingageiranum, lýsir slíku eftirliti. „Við kynnum okkur, sjáum hvort það sé yfirmaður. Og reynum að komast á band þeirra, gerum þeim grein fyrir hvað við erum að gera og af hverju við erum að gera það. Kannski tala þau ekki neitt við okkur. Kannski fáum við eitthvað. Það er bara frábært. Þá er þetta bara eitt skref í rétt átt til að hafa heilbrigðan og sanngjarnan vinnumarkað, eitthvað sem við höfum grun um að sé ekki alveg í gangi þarna.“

Kveikur fór í heimsókn á veitingastaðinn Pho á Suðurlandsbraut með vinnustaðaeftirlitinu þriðjudagskvöld í byrjun febrúar. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur illa gengið að fá starfsfólkið til að tala við yfirvöld um aðstæður sínar. Það sama var uppi á teningunum í þessari ferð.

„Þau segja, að því er virðist, öll það sama,“ segir Saga frá ASÍ. „Þau eru spurð um vinnutíma. Þau segjast vinna 15 daga í mánuði og eins og þau hafi fengið jafnvel leiðbeiningar um að segja það. Svo kemur kannski fram, jafnvel bara í sama samtali: Já, nei, ég er alltaf í vinnunni. Ég eiginlega er aldrei heima hjá mér.“

„Það hefur dálítið gengið treglega að fá öll gögn sem við þurfum, og þá sérstaklega tímaskriftir, hversu margar vaktir þau eru að vinna og hvenær,“ bætir Adam við. „Það hefur verið bara dropi og dropi af því. Við fáum alla launaseðla en launaseðlarnir eru mjög þunnir og að okkar mati endurspegla ekki raunverulegt vinnuframlag.“

Blær staðfestir þetta. „Ég vinn 12-13 tíma. Ég tek strætó og er mættur í vinnuna 10:10 og er að vinna til kl. tíu eða ellefu að kvöldi. Ég vinn sex daga vikunnar og fæ frí einn dag.“ Og það er heldur ekki í boði að setjast niður í hádeginu eða kaffi. „Nei, við þurfum að nýta tímann þegar það er lítið að gera, en þurfum ávallt að vera á varðbergi. Þurfum að líta til hægri, vinstri ef ske kynni að Dung pabbi hans eða bróðir hans koma.“ Dung er faðir Quangs Lé. Og það kemur kannski ekki á óvart að þótt Blær segist hafa unnið á Íslandi í nokkur ár hefur hann aldrei fengið sumarfrí né jólafrí.

„Ég þarf bara að mæta í vinnuna ef ég er veikur. Ef við erum alveg rúmliggjandi þá megum við taka einn dag í frí en fáum ekki greitt fyrir. Það er ekki þess virði að taka þennan dag í frí því þá lætur hann okkur vinna enn þá meira þegar við mætum aftur.“

Quang Lé ásamt viðskiptafélögum á Pho Vietnamese í janúar 2024

Þegar spurt er um launagreiðslur lýsir Blær líka skrítinni fléttu. „290 þúsund íslenskar, en fæ millifært til mín á bilinu 425-480  þúsund. En ég fæ ekki að halda öllum laununum. Ég þarf að skila peningum til hennar.“ Hún sem hann vísar til er Bich, núverandi sambýliskona og fyrrverandi eiginkona Quangs Lé. Blær segir enga launaseðla gefna út, en millifært sé á hann mánaðarlega.

Við þetta bætast milljónirnar sem Blær þurfti að greiða fyrir það eitt að fá vinnuna á Íslandi . Hann greiddi níu milljónir króna, borgaði sjálfur fyrir flugið til Íslands og aukalega fyrir alla pappíra. Verðmiðinn til að fá fjölskylduna til Íslands voru svo rúmar átta milljónir til viðbótar.

Blær býr í húsnæði sem að fjölskylda hans er með á leigu. Hann segir að þeir aðilar sem búi í húsnæði á vegum Quangs þurfi að vinna sjö daga vikunnar til að greiða fyrir leiguna. „Ég þarf bara að vinna sex daga því ég bý ekki í húsnæði á hans vegum. Þeir sem búa í húsnæði sem hann á búa flest í kringum Borgartúnið. Hann á mikið af eignum þar. Ég veit að á sums staðar búa þrjár fjölskyldur í einu húsi. Núna eru öll húsin hans full þannig margir hafa flutt inn í hótelið hans í Herkastalanum.“

Vinnumansal er vaxandi brotastarfsemi

Frásögn Blæs kemur starfsfólki Bjarkarhlíðar ekki á óvart. Bjarkahlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og síðustu fjögur ár haldið úti framkvæmdateymi um mansalsmál. Málin eru flókin og þolendur yfirleitt mjög hræddir.

„Oft og tíðum bara við það að koma til landsins þá ertu búin að stofna til skuldar. Þú veist jafnvel ekkert. Þér er gefin upphæð í gjaldmiðli sem þú skilur ekki og þú veist ekki hvað það tekur þig langan tíma að greiða upp þessa skuld ef einhvern tímann. Og ef þú uppyllir ekki í rauninni þann hluta samningsins sem þér hefur verið settur, þá geta verið afleiðingarnar fyrir aðra. Það geta verið afleiðingar fyrir fjölskylduna þína sem er enn þá í heimalandinu. Það geta verið afleiðingar fyrir fjölskylduna þína sem kom með þér hingað,“ segir Jenný Kristín Valberg, teymisstjóri, þar sem hún situr í friðsamlegu hvítmáluðu herbergi í Bjarkarhlíð. „Mansal er náttúrulega  vaxandi brotastarfsemi alls staðar í heiminum. Ísland er ekkert undanskilið því.“

Jenný Kristín Valberg hjá Bjarkarhlíð

Fórnarlömbin treysta ekki yfirvöldum og leggja frekar traust sitt á þá sem hagnýta þau eða halda þeim föstum. En margir reyna að hjálpa, þar á meðal kona sem við köllum Júlíu. Hún hefur tengingu inn í víetnamska samfélagið á Íslandi, talar tungumálið og hefur aðstoðað nokkra við að losna frá Quang, eins og þau orða það.

„Hann sýnir ógnandi hegðun þegar hann fer á veitingastaðina og  hittir starfsfólkið sitt. Þau eru hrædd um að fá ekki endurnýjað dvalarleyfi og þurfi þá að snúa aftur til síns heimalands. Það er einhvern veginn alltaf talin smá skömm að vera að fara út til útlanda, sérstaklega til Evrópu, fá vinnu og einhvern veginn vera sendur heim eins og þú sért ekki nógu góður í því sem þú ert að gera.“

Blær tekur undir þetta og segir samstarfsfélaga sína óttast að vera sendir aftur til síns heima og margt fleira.

Víetnamska menningin

Michael Brosowski er stofnandi Blue Dragon Children Foundation sem eru frjáls félagssamtök í Víetnam með aðsetur í Hanoi. Samtökin voru stofnuð árið 2003 í þeim tilgangi að bjarga víetnömskum börnum í neyð sem hafa meðal annars lent í vændismansali, nauðungarvinnu og þrælahaldi. Samtökin hafa bjargað um 1500 börnum.

Michael Brosowski hefur búið áratugum saman í Víetnam og unnið með börnum í neyð

Hann lýsir því hvernig þessi vandi tengist á vissan hátt víetnamskri menningu. Orð nákominna, ættingja og vina, hafi mikið vægi og fregnir fólk úr þeirri átt af fólki sem haldið hafi til Íslands með loforð um frábært starf veki það vonir um gull og græna skó.

„En þegar á hólminn er komið reynist þetta oft tálsýn. Fólk er jafnvel hneppt í þrældóm og vinnur við afar bágar aðstæður. En í Víetnam er stundum talað um „andlitið“, fólk vill ekki viðurkenna fyrir öðrum að það hafi lent í vanda. Fólki finnst jafnvel að það hafi brugðist, ekki síst ef tilgangurinn var að afla fjár, ekki bara fyrir sjálf sig heldur aðra. Stundum eru þetta fyrirvinnur heillar fjölskyldu og jafnvel stórfjölskyldu. Og við höfum margoft rekið okkur á það í þessum vinnumalsalsmálum að fólk vill ekki viðurkenna fyrir ættingjum og vinum að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Fólk heldur einfaldlega áfram að finna og leitar annarra leiða frekar en að leita sér hjálpar.“

Þetta er alls ekki óþekkt, raunar má segja að þetta sé þekkt módel sem á sér hliðstæður víða um heim þar sem eru stór samfélög frá Kína og Víetnam. Nenad Nača, teymisstjóri greiningardeildar Europol í mansalsmálum, sagði Kveik frá því sem hann og kollegar hans rekast iðulega á.

Nenad Nača, teymisstjóri greiningardeildar Europol í mansalsmálum

„Við rekumst ítrekað á svipaðar frásagnir, einkum í veitingageiranum og á snyrtistofum. Við sjáum líka að þessir geirar tengjast mansali og smygli á fólki frá Víetnam til ákveðinna landa. Og svo þarf fólk að vinna upp í skuldina.“

Lögreglan grípur til aðgerða

Á þriðjudag, þegar leið að hádegi, virtist allt með kyrrum kjörum fyrir utan veitingastaðinn Pho á Suðurlandsbraut. En allt í eini birtist hópur fólks, sem fór svo sem ekki mikið fyrir. En þetta markaði upphaf einhverrar stærstu lögregluaðgerðar seinni ára.

En á tuttugu og níu stöðum til viðbótar var mættur sambærilegur hópur – og í þeim hópi fjölgaði eftir því sem leið á síðdegis.

Leitað var á veitingastöðum í Reykjavík, á Suðurnesjum, Vík í Mýrdal og Akureyri. Farið var inn á hótelin – þar sem furðu lostnir hótelgestir skildu ekki hvers vegna þeim var skipað út.

Stærsta aðgerðin var við heimili meints höfuðpaurs, Quangs Lés, og bróður hans, í Miðtúni.

Kveikur fylgdist með aðgerðunum fram eftir degi. Um miðjan dag hittum við Gunnar Axel Davíðsson, lögreglumann og stjórnanda aðgerðanna í stjórnstöð sem sett hafði verið upp. Þar var líka tekið á móti fórnarlömbum mansalsins, þeim veitt aðstoð og fræðsla. Gunnar sagði upphaf aðgerðanna vera tilkynningar sem borist hefðu yfir nokkurra ára tímabil. „Það var bara kominn tími til að skoða þetta, hvað væri að baki þessum tilkynningum. Brotin sem eru til skoðunar eru vinnumansal og peningaþvætti. Brot á útlendingalögum og skipulögð dvalarleyfissala.“

Daginn eftir voru sex leiddir fyrir dómara og krafist vikulangs gæsluvarðhalds yfir þeim. Gunnar segir aðgerðirnar marka upphaf en ekki endi. „Já þetta er bara rétt að byrja núna? Þetta er bara rétt að byrja.“

Gunnar Axel Davíðsson, lögreglumaður

Meintum fórnarlömbum verður veitt dvalarleyfi og í kjölfarið atvinnuleyfi, segir Gunnar Axel, og fólkinu verður boðið húsnæði.

Hvers vegna núna og hvers vegna Ísland?

Ein ástæða þessu fjölgunar er hversu auðvelt er að komast til Íslands á grundvelli svokallaðra sérfræðileyfa. Ísland hefur, eitt örfárra landa, notað sömu viðmið fyrir borgara annarra ríkja en EES-ríkja þegar kemur að því að meta og viðurkenna ýmiskonar sérfræðimenntun aðra en háskólamenntun. Lengi vel gátu innflytjendur, þar á meðal frá Víetnam, sótt um viðurkenningu á fagmenntun, svo sem sérnám í asískri matargerð eða handsnyrtingu. Undanfarinn áratug snerist þó ferlið við úrvinnslu umsókna við, svo að fólk gat sótt um viðurkenningu án þess að vera komið eða á leið til landsins. Og svo virðist vera sem auðvelt hafi verið að fá alls konar pappíra, sem staðfesta áttu menntun, í Víetnam. Heimildir Kveiks innan stjórnkerfisins segja grun um mansal hafa vaknað þegar ljóst var að sprenging varð í umsóknum frá Víetnam og að mjög hafi verið hert á umsóknum um viðurkenningu á sérmenntun í asískri matargerð og handsnyrtingu frá í haust sem leið.

Í gegnum eitt sérfræðileyfi er svo hægt að fá dvalarleyfi fyrir fleiri á grundvelli fjölskyldusameiningar , fyrir maka, börn og foreldra yfir 67 ára. Meirihluti Víetnama sem fengu dvalvarleyfi hér á landi síðustu ár fengu það á þessum forsendum eða yfir 300 manns. Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun eiga  erfitt með að sannreyna hver raunveruleg tengsl þessa fólks eru og hvort að prófskírteini og aðrir pappírar séu ekta.

Þá eru einnig dæmi um að fólk fái dvalarleyfi í gegnum málamyndahjúskap. Þar sem Íslendingum er m.a. greidd há upphæð fyrir að giftast Víetnama – einstakling sem hann hittir möguleg aldrei.

Eftir fjögur ár á tímabundnu dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar er svo loks hægt að sækja um tímabundið dvalarleyfi. Þá hefur Lé ekki sama tangarhald á starfsfólkinu og miðað við samtöl Kveiks við fólk sem þekkir til yfirgefa allir starfsmenn hann þegar dvalarleyfið er komið í hendurnar á þeim.

Júlía, sem þekkir vel til víetnamska samfélagsins og hefur aðstoðað fólk sem vill losna úr klóm Quangs, segir fólkið tala um að losna. „Þau losna úr einhveri gildru eða fangelsi sem þau hafa verið í. Og segja alltaf, segja að þau séu að losna. Losna er kannski ekki... það er vægt orð. Þau segja ekki ég ætla að skipta um vinnu. Þetta er meira svona: Ég losna frá honum eftir sjö mánuði.“

Ísland gagnrýnt í mansalsmálum.

ASÍ og fleiri hafa ítrekað bent stjórnvöldum á þetta mein á vinnumarkaði og að við því þurfi að bregðast. Þrátt fyrir yfirlýstan vilja hafa stjórnvöld hikað við að bregðast við þessum vanda sem fer vaxandi.

Saga, sem er meðal þeirra sem sinna vinnustaðaeftirliti hjá ASÍ, segir stöðu borgara utan EES sérstaklega viðkvæma því atvinnuleyfi þeirra séu tímabundin. „Þau eru berskjaldaðri fyrir alls konar misneytingu og mansali. Við þurfum að hafa sérstakt eftirlit með þeirra kjörum, það er að segja fólk sem vinnur á tímabundnum atvinnuleyfum. Og við þurfum að geta aðstoðað þau þegar og ef þau lenda í misneytingu eða mansali og þurfum að hafa einhverja örugga útleið.“

Ísland hefur um alllangt skeið sætt harðri gagnrýni fyrir sleifarlag í mansalsmálum. Fyrir jól var birt skýrsla eftirlitsnefndar Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali og lesningin var svört. Þar sagði meðal annars að Ísland væri bæði áfangastaður fórnarlamba mansals og þeim væri smyglað í gegnum landið. Rannsókn og saksókn væru í skötulíki sökum mannaafla- og þekkingarskorts. Löggjöf var gagnrýnt og bent á að frá 2019-2022 hefði lögregla rannsakað 71 meint mansalsmál. Einungis ein rannsókn hefði leitt til saksóknar sem en ekki til sakfellingar. Og þá er gagnrýnt hversu litlar framfarir hafi orðið í báráttunni gegn vinnumansali.

„Það er sérstaklega minnst á varðandi vinnumansal að það sé þannig í dag að svona mál fari yfirleitt bara í hefðbundin launakröfufarveg hjá stéttarfélögum frekar en þau séu meðhöndluð sem mansalsmál,“ segir Saga hjá ASÍ.
Nenad Nača, teymisstjóri greiningardeildar Europol í mansalsmálum, segir mikilvægt að fleiri en stjórnvöld sýni meðvitund um mansal. „Fórnarlömb mansals eru ekkert endilega í hlekkjum, barin og brotin. Þetta getur verið ósköp venjulegt fólk sem vinnur í verslun, á veitingastað eða á naglasnyrtistofu. Fólk þarf að hafa augun opin fyrir óeðlilegum vinnutíma, svo dæmi séu tekin, og láta yfirvöld vita vakni grunur um eitthvað skrítið. Við þurfum öll að standa saman í baráttunni gegn þessu því á meðan hægt er að hagnast halda glæpamennirnir áfram.

„Hann kemur fram við okkur eins og hunda“.

Blær hefur fengið nóg af framkomu Quangs Lé og þeirri nauðung sem fylgir vinnunni hjá honum. „Ég ætla að nýta tækifærið hér og segja frá öllu. Í fyrsta lagi er að ég get ekki meir, ef það er engin önnur leið þá fer ég þá leið. Í öðru lagi kemur hann fram við okkur á mjög andstyggilegan hátt, við erum mennsk og erum bæði frá Víetnam, hvernig getur hann komið svona fram við samlanda sína? Hann kemur fram við okkur eins og við séum hundar.“

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu vefumfjöllunarinnar, og þeirri sem var send út í sjónvarpinu, var ranglega sagt að Quang Lé ætti húsið að Vesturgötu 2 í Reykjavík. Hið rétta er að félag í hans eigu leigir húsið og hefur staðið fyrir framkvæmdum þar.