Lifa og starfa í návígi við dauðann

Tímans köldu fjötra enginn flýr. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera. Einu sinni voru menn heygðir, sumstaðar eru menn gerðir að múmíum - og það jafnvel á okkar tímum.

En víðast hvar fara hinir látnu ofan í jörðina. Tíðarandi, trúarbrögð og menning móta það hvernig við umgöngumst hina dauðu en alltaf er markmiðið þó að votta þeim virðingu. Halda minningunni á lofti.

Áður fyrr var umstangið eftir andlát á hendi nánustu ástvina, en í dag sjá fagmenn um verkið. Á útfararstofum lifa menn og hrærast í meira návígi við dauðann en á flestum öðrum vinnustöðum. Við skyggnumst inn í hversdaginn hjá þessu fólki; sem er alla daga í aðstæðum sem eru allt annað en hversdagslegar fyrir flest okkar.