06:50
Morgunútvarpið
15. mars - Forvarsla, verslun, Úkraína, landakaup, húsnæðisverð o.fl.
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Rúnar Róbertsson.

Við kynntum okkur forvörslu í þættinum í dag og fengum góða gesti til að kynna okkur þetta forvitnilega starf, þær Ingibjörgu Áskelsdóttur forvörð á Borgarsögusafni og formann Félags norrænna forvarða á Íslandi og Nathalie Jaqument sem starfar m.a. á Listasafni Íslands.

Samtök verslunar og þjónustu halda á morgun ráðstefnu um framtíðarhæfni, sjálfbærni og stafræna þróun undir yfirskriftinni ertu tilbúinn fyrir framtíðina, en reiknað er með að fyrirtæki sem ekki bregðist við muni eiga erfitt uppdráttar, jafnvel í náinni framtíð. Nýleg skýrsla McKinsey um fjárfestingarþörf á þessum sviðum gerir ráð fyrir mjög háum upphæðum og við veltum fyrir okkur hvernig verslun á Íslandi er undir þessar umbreytingar búin? Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar- og þjónustu fór yfir stöðuna með okkur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var á línunni hjá okkur, en hún er í á ferðalagi frá Úkraínu ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þær hittu ýmsa ráðamenn landsins og Katrín fundaði með forseta landsins Volodomyr Zelensky en þau ræddu áframhaldandi stuðning Íslands vegna innrásar Rússa. Við heyrðum í Þórdísi í Póllandi, á heimleið.

Fjallið Skessuhorn hefur verið selt kanadískum auðjöfrum samkvæmt Fréttablaðinu í gær. Þar sagði af áformum kanadískra hjóna sem keypt höfðu jörðina Horn sem fjallið fræga stendur á. Við ræddum kaup erlendra stórkaupsmanna á íslenskum jörðum og jafnvel auðlindum, bæði út frá íslenskum landbúnaði og útivist. Þau komu til okkar Tómas Guðbjartsson læknir og útivistargarpur og Erla Hjördís Gunnarsdóttir kynningarstjóri Bændasamtakanna.

Húsnæðisverð hefur hækkað meira hér undanfarinn áratug en í öllum samanburðarlöndum okkar og nú er svo komið að fasteignaverð hefur aldrei verið hærra í hlutfalli við laun. Hagfræðingur BHM, Vilhjálmur Hilmarsson, kíkti til okkar og ræddi svimandi hátt húsnæðisverð og þróun þess.

Glæný uppfærsla leikhópsins Elefant á Íslandsklukkunni verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu á morgun. Uppsetningin á sér töluvert langan aðdraganda og áhorfendur mega búast við nýrri nálgun á verkið þó texti Laxness haldi sér að mestu leyti. Þorleifur Örn Arnarsson leikstýrir verkinu og hann leit við hjá okkur.

Tónlist:

Ellen Kristjáns og John Grant - Veldu stjörnu.

George Harrison - All those years ago.

Saga Matthildur - Leiðina heim.

David Bowie - Ashes to ashes.

Langi Seli og Skuggarnir - OK.

Stebbi JAK - Líttu í kringum þig.

John Mayer - Queen of California.

Scarlet Pleasure -What a life.

Var aðgengilegt til 14. mars 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,