Færslur: Venesúela

Maduro fær 30 daga bann á Facebook
Facebook-aðgangi Nicolas Maduro, forseta Venesúela, verður lokað í einn mánuð. Forsetinn braut reglur samfélagsmiðilsins um dreifingu falsfrétta. Maduro lýsti dropunum Carvativir, sem unnir eru úr blóðbergi, sem kraftaverkameðali sem drepi kórónuveiruna sem veldur COVID-19, og það án allra aukaverkana. Læknar segja vísindin ekki styðja þessa fullyrðingu. 
27.03.2021 - 08:01
Sendiherra ESB í Venesúela rekin úr landi
Isabel Brilhante Pedrosa, sendiherra Evrópusambandsins í Venesúela, var rekin úr landi í dag. Henni voru gefnir þrír sólarhringar til að hverfa á brott. Þing landsins samþykkti samhljóða að nærvera hennar væri óæskileg.
Biðja um aðstoð við að bólusetja Venesúelamenn
Stjórnvöld í Kólumbíu fara fram á aðstoð alþjóðasamfélagsins við að bólusetja hátt í eina milljón Venesúelamanna sem hafast við í landinu, en hafa ekki hirt um að verða sér úti um dvalarleyfi. 
Spútnik-bóluefni til Mexíkós og Brasilíu
Stjórnvöld í Mexíkó hafa tryggt sér milljónir skammta af rússneska bóluefninu Spútnik. Brasilíumenn eru að leggja lokahönd á samninga um kaup á milljónum skammta af hvorutveggja Spútnik-bóluefninu og indverska bóluefninu Covaxin. Spútnik er talið álíka skilvirkt og bestu, vestrænu bóluefnin á markaðnum en áreiðanlegar upplýsingar um virkni Covaxin liggja ekki fyrir.
Maduro boðar betri tíð í samskiptum við Bandaríkin
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, fagnar nýjum húsbónda í Hvíta húsinu í Washington og segist reiðubúinn að „snúa við blaðinu" í samskiptunum við Bandaríkjastjórn, sem einkenndust af mikilli spennu og fjandsemi á báða bóga í fjögurra ára valdatíð Donalds Trumps.
Maduro lýsir yfir sigri
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hefur lýst yfir sigri í þingkosningunum sem fram fóru í gær. Þegar búið var að telja rúmlega áttatíu prósent atkvæðanna hafði flokkur hans fengið hátt í 68 prósent atkvæða. Helstu stjórnarandstöðuflokkar Venesúela tóku ekki þátt í kosningunum, sögðu þær blekkingarleik og hvöttu kjósendur til að sitja heima. Enda var kjörsókn lítil, eða rúmlega þrjátíu prósent. 
07.12.2020 - 09:44
Maduro og stjórn hans borin þungum sökum
Öryggissveitir stjórnvalda í Venesúela hafa orðið á þriðja þúsund stjórnarandstæðingum að bana það sem af er þessu ári, að sögn Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Þá er fólk beitt harðræði fyrir það eitt að koma saman og mótmæla ástandinu í landinu með friðsömum hætti.
Mike Pompeo segir Maduro að hypja sig
Nicolas Maduro forseti Venesúela segir Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafa mistekist það ætlunarverk sitt að æsa nágrannaríkin upp í stríð gegn Venesúela.
Maduro náðar stjórnarandstæðinga
Yfir hundrað stjórnarandstöðuþingmenn og aðstoðarmenn stjórnarandstöðuleiðtogans Juan Guaido voru náðaðir í gær af Nicolas Maduro, forseta Venesúela. Var það gert til þess að leita þjóðarsáttar segir í yfirlýsingu stjórnvalda. Guaido sjálfur var ekki meðal þeirra sem voru náðaðir.
01.09.2020 - 02:36
Nota faraldurinn til að ofsækja andstæðinga
Stjórnvöld í Venesúela nýta sér kórónuveirufaraldurinn til að standa að öflugri herferð gegn andófsfólki. Þetta fullyrða mannréttindasamtökin Human Rights Watch sem segist hafa orðið vör við óhugnanlegt mynstur ofsókna og þvingana hjá öryggissveitum landsins gegn þeim sem eru gagnrýnir í garð stjórnarinnar.
28.08.2020 - 16:40
Írönsk olíuskip stöðvuð á leið til Venesúela
Bandarísk yfirvöld segjast hafa stöðvað fjögur írönsk olíuflutningaskip á leið til Venesúela. Um 1,1 milljón olíutunna voru um borð og eru nú í vörslu yfirvalda, hefur fréttastofa BBC eftir yfirlýsingu bandaríska dómsmálaráðuneytisins.  Lagt var hald á olíubirgðirnar þar sem sendingin stangaðist á við viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna í garð Venesúela.
15.08.2020 - 02:13
Óttast hópsmit á stærsta markaði borgarinnar
Stærsti matarmarkaður Caracas, höfuðborgar Venesúela þykir nú hættusvæði fyrir kórónuveirusmit í borginni. Févana kaupmenn neita hins vegar að hætta að bjóða matvæli sín til sölu þar.
04.08.2020 - 13:28
Bretar neita að afhenda Maduro gull Venesúela
Breskur dómstóll hafnaði í gær kröfu Nicolas Maduro, forseta Venesúela, um yfirráð yfir gullforða ríkisins sem geymdur er í enska seðlabankanum. Breska stjórnin hefur ótvírætt gefið það að hún telji stjórnarandstæðinginn Juan Guaido réttmætan forseta Venesúela, og Maduro geti því ekki fengið forðann.
03.07.2020 - 05:55
Maduro tilbúinn til fundar við Trump
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, kveðst reiðubúinn til fundar við Donald Trump Bandaríkjaforseta hvenær sem færi gefst. Trump lýsti því yfir í viðtali við Axios í gær að hann myndi mögulega velta því fyrir sér að halda fund með Maduro, en sýndi svo allt aðra hlið á Twitter í dag.
23.06.2020 - 00:52
Efast um upplýsingar um veirusmit í Venesúela
Mannréttindavaktin, Human Rights Watch, og vísindamenn við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum draga í efa upplýsingar frá stjórnvöldum í Venesúela um útbreiðslu kórónuveirufarsóttarinnar þar í landi. Samkvæmt þeim höfðu tólf hundruð og ellefu smitast af veirunni og ellefu dáið af völdum COVID-19 síðasta sunnudag. Í Venesúela búa um þrjátíu milljónir.
Venesúela vill fá andvirði gullforða síns
Seðlabanki Venesúela sendi í síðustu viku lögformlega kröfu til enska seðlabankans um að leysa út gullforða Venesúela í bankanum. Hann er um eins milljarð bandaríkjadala virði, eða um 140 milljarða króna. Yfirvöld í Venesúela segjast þurfa nauðsynlega á forðanum að halda vegna kórónuveirufaraldursins.
20.05.2020 - 06:58
Venesúelski herinn handtók 36 manns við landamærin
Hersveitir Venesúela handtóku 36 manns við Kólumbísku landamærin í dag. Hópurinn er sakaður um að eiga hlut í samsæri um að steypa Nicolas Maduro, forseta Venesúela, af stóli.
15.05.2020 - 01:55
Útgöngubann í Venesúela framlengt um mánuð
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, tilkynnti í dag að útgöngubann þar í landi verði framlengt um mánuð vegna kórónuveirufaraldursins. Útgöngubann var sett þar á þrettánda mars og hefur þegar verið framlengt einu sinni. Jafnframt hefur bann á flugi til og frá landinu verið framlengt til tólfta júní, samkvæmt AFP fréttastofunni.
13.05.2020 - 02:16
Fleiri handtökur eftir misheppnaða innrás í Venesúela
Ellefu voru handteknir í Venesúela í gær, grunaðir um að tengjast misheppnaðri innrás í landið og samsæri um að koma forseta landsins frá völdum. Alls hafa 45 verið handteknir.
11.05.2020 - 05:50
Tómir herbátar haldlagðir í Venesúela
Herinn í Venesúela segist hafa lagt hald á þrjá yfirgefna kólumbíska herbáta. Vélbyssur og skot voru um borð í bátunum, en engir skipverjar. Bátarnir fundust í eftirlitsferð um ána Orinoco. Ferðin tilheyrði umfangsmikilli aðgerð sem á að tryggja frelsi og sjálfstæði Venesúela, hefur Al Jazeera fréttastofan eftir yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Venesúela.
10.05.2020 - 06:11
Ætluðu að ná Maduro úr forsetahöllinni
Annar bandarísku málaliðanna sem var handtekinn í Venesúela segir þá hafa ætlað að nema forsetann Nicolas Maduro á brott, hvað sem það kostaði. Hugmyndin var að ryðjast inn í forsetahöllina, sem jafnan er vel gætt, og koma Maduro einhvern veginn undan. 
Bandaríkjastjórn neitar þátttöku í samsæri
Bandaríkjastjórn þvertekur fyrir að eiga nokkurn þátt í verkefni Bandaríkjamanna sem voru handteknir í Venesúela um helgina. Stjórnvöld í Venesúela greindu frá því í fyrradag að tveir Bandaríkjamenn séu í varðhaldi í Venesúela, grunaðir um aðild að samsæri um að koma Nicolas Maduro, forseta landsins, frá völdum og ráða hann af dögum. Bandaríkjastjórn sakar stjórn Maduros um áróður og rógburð.
06.05.2020 - 04:53
Bandaríkjamenn í haldi í Venesúela
Tveir Bandaríkjamenn sem handteknir voru í Venesúela í fyrradag eru sakaður um aðild að samsæri um að koma Nicolas Maduro, forseta landsins, frá völdum og ráða hann af dögum.
05.05.2020 - 08:17
Venesúela: Nýtt tilboð frá Bandaríkjamönnum
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa boðist til að aflétta refsiaðgerðum gegn Venesúela að vissum skilyrðum uppfylltum. Tillögur Bandaríkjastjórnar gerir ráð fyrir að Nicolas Maduro, forseti Venesúela, láti af embætti, og að skipuð verði bráðabirgðastjórn til að hefja undirbúning að kosningum. 
01.04.2020 - 09:49
Guaido hlaut blendnar viðtökur í Venesúela
Stjórnarandstöðuleiðtoginn Juan Guaido lenti í Venesúela í gær, eftir nokkurra vikna ferðalag í trássi við ferðabann sem stjórnvöld lögðu á hann. Guaido er meðal annars búinn að heimsækja Hvíta húsið í boði Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, og eins sótti hann fund Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss.