Færslur: Málefni fólks á flótta

Tugum bjargað á Ermarsundi
Tugum flótta- og förufólks sem freistuðu þess að komast sjóleiðina frá Frakklandi til Bretlands var bjargað úr tveimur yfirfullum manndrápsfleytum á Ermarsundinu á mánudagskvöld. Í tilkynningu franskra landamærayfirvalda segir að alls hafi 71 manneskju verið bjargað af bátunum tveimur, sem báðir eru sagðir hafa verið í afar slæmu ástandi.
27.10.2021 - 01:28
126 flóttamönnum bjargað úr læstum gámi
Lögreglan í Gvatemala kom í gærmorgun 126 flóttamönnum til bjargar sem höfðu verið læstir inni í flutningagámi. Vegfarendur kölluðu lögreglu til eftir að hróp og köll heyrðust frá gámnum, sem hafði verið skilinn eftir í vegkanti. Yfirvöld segja líklegast að smygglarar hafi yfirgefið gáminn á leið til Bandaríkjanna.
10.10.2021 - 09:15
Fjórir flóttamenn dáið úr kulda við landamæri Póllands
Að minnsta kosti fjórir flóttamenn hafa dáið úr kulda í skóginum á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands á undanförnum vikum. Þar dvelur nokkur fjöldi flóttafólks sem segir að þeim hafi verið vísað ólöglega frá Póllandi af pólskum landamæravörðum. Hitastigið í skóginum fer vel undir frostmark á næturna.
24.09.2021 - 08:19
39% landsmanna telja of fáum veitt hæli hér á landi
Um 39 prósent landsmanna telja að fjöldi flóttafólks sem veitt er hæli á Íslandi sé of lítill. Þetta er nokkur breyting frá mælingum fyrri ára þegar um þrjátíu prósent voru þeirrar skoðunar. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem gerð var 18. til 24. ágúst.
07.09.2021 - 14:00
Sjónvarpsfrétt
„Þeir voru að leita að fólki eins og mér“
Ákvörðunin um að fara var erfið, segir afgönsk kona sem kom hingað á föstudag. Hún þurfti að skilja við móður sína og systur sem hún segir skotmörk Talíbana, líkt og hún sjálf.
Pólverjar reisa landamæragirðingu og fjölga vörðum
Pólverjar hyggjast auka varnir og herða gæslu til muna á landamærunum að Hvíta Rússlandi til að stöðva sívaxandi flæði flótta- og förufólks sem þaðan kemur til Póllands. Mariusz Blaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, segir 2,5 metra háa víggirðingu verða reista meðfram endilöngum landamærunum, auk þess sem landamæravörðum verði fjölgað verulega.
24.08.2021 - 03:19
Tugir drukknuðu milli Afríku og Kanaríeyja
Fullvíst þykir að tugir flótta- og förufólks hafi drukknað í sjónum milli Afríkustranda og Kanaríeyja í vikunni. Einni konu var bjargað á fimmtudag en um fjörutíu til viðbótar er saknað og eru þau talin af.
20.08.2021 - 06:22
Koma kvótaflóttamanna áætluð í september
Vegna heimsfaraldursins hafa orðið miklar tafir á komum kvótaflóttamanna til landsins. Á síðasta ári ætluðu stjórnvöld að taka á móti 85 flóttamönnum sem staðsettir væru í Líbanon, Ísrael og Kenía en ekkert þeirra er komið til landsins.
Segja Hvítrússa senda flóttafólk til Litáens í hrönnum
Margfalt fleira flóttafólk hefur streymt landleiðina til Litáens á síðustu dögum og vikum en allt árið í fyrra. Litáar fá aðstoð landamærastofnunar Evrópu, Frontex, til að bregðast við þessum óvænta flóttamannastraumi. Flóttafólkið ferðast í gegnum Hvíta Rússland, sem sakað er um að greiða leið flóttafólksins til litáísku landamæranna til að ná sér niðri á Litáen og Evrópusambandinu.
Stjórn Afganistans biður afgönsku flóttafólki griða
Stjórnvöld í Kabúl hvetja Evrópuríki til að hætta að senda afganskt flóttafólk aftur til Afganistans, þótt því hafi verið synjað um hæli í viðkomandi ríkjum. Ástæðan er sú að talibanar sölsa undir sig æ stærri landsvæði í Afganistan jafnharðan og Vesturlönd draga herafla sinn þaðan, og landið þess vegna fjarri því að geta talist öruggt ríki. Afganska ríkisstjórnin fer því fram á að Evrópuríki hætti að senda Afganskt flóttafólk til síns heima næstu þrjá mánuði hið minnsta.
Krefjast ógildingar á úrskurði kærunefndar
Mál nígeríska hælisleitandans Uhunoma Osayomore gegn íslenska ríkinu var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Krafist er ógildingar á úrskurði kærunefndar útlendingamála sem staðfesti ákvörðun Útlendingamálastofnunar þess efnis að synja honum um alþjóðlega vernd fyrr í mánuðinum.
Biden heldur sig við flóttamannakvóta Trumps
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, undirritaði á föstudag tilskipun þess efnis að hleypa skuli að hámarki 15.000 flóttamönnum til Bandaríkjanna á þessu fjárlagaári, og hróflar þar með ekki við ákvörðun forvera síns um þetta mál þrátt fyrir fyrirheit um annað.
Hafa vísað níu flóttamönnum aftur til Grikklands
Útlendingastofnun hefur vísað níu flóttamönnum aftur til Grikklands það sem af er ári. Þá stendur til að vísa 25 öðrum þangað á næstu mánuðum. Stofnunin ákvað síðasta vor að vísa flóttafólki ekki til Grikklands vegna kórónuveirufaraldursins en hefur síðan í haust synjað einstaklingum um efnislega meðferð sem hafa þegar hlotið vernd þar.
09.04.2021 - 13:05
Umsækjendum fækkaði en fleiri fengu vernd
Útlendingastofnun bárust fjórðungi færri umsóknir um alþjóðlega vernd í fyrra en árið áður, en þó hafa aldrei fleiri fengið vernd. Forstjóri Útlendingastofnunar segir líklegt að umsóknum fjölgi um leið og samgöngur milli landa verði greiðari.
„Aðstæður flóttafólks í Bosníu algerlega óviðunandi“
Aðstæður flóttafólks í Bosníu-Hersegóvínu eru algerlega óviðunandi að sögn Johanns Sattler sendifulltrúa Evrópusambandsins í landinu. Þann 23. desember síðastliðinn brunnu búðir flóttafólks í Lipa nærri borginni Bihac í norðvesturhluta landsins. Það varð til þess að fjöldi flóttafólks er á vergangi án húsaskjóls.
Frelsuðu rúmlega 20 manns úr þrælakistu á Spáni
Lögregla á Spáni bjargaði á dögunum hópi farandverkafólks úr hörmulegum aðstæðum í vöruskemmu í bænum Fuente Álamo í Murcia-héraði. Í tilkynningu lögreglu segir að fólkið hafi verið neytt til að vinna langa vinnudaga við ömurlegan aðbúnað í flokkunarstöð fyrir notuð föt, sem safnað er á Spáni og seld til Afríku. Fyrir stritið fengu þau greiddar tvær evrur á tímann, um þrjú hundruð krónur íslenskar.
Metfjöldi flóttafólks nær landi á Kanaríeyjum
Yfir eitt þúsund flóttamenn frá Afríku hafa náð landi á Kanaríeyjum undanfarna tvo sólarhringa. Annar eins fjöldi flóttafólks hefur ekki sést á eyjunum í meira en áratug.
„Bæta ber hagsmunamat barna sem hingað koma“
„Rætt hefur verið hvernig við getum bætt hagsmunamat barna sem hingað koma. Við munum gera á þeim ákveðnar úrbætur. Það hefur einnig verið rætt að bæta stöðu fylgdarlausra barna,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við fréttastofu.
Tveir ákærðir fyrir setumótmæli í dómsmálaráðuneytinu
Tveir hafa verið ákærðir fyrir mótmæli í dómsmálaráðuneytinu í apríl í fyrra. Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun. Báðir neita sök. Annar mannanna, Kári Orrason, skrifaði lögreglustjóra opið bréf vegna málsins í morgun.
Flóttabörn verði ekki send til Grikklands
Unnið er að því í þremur ráðuneytum að breyta reglum þannig að börn á flótta verði ekki send til Grikklands. Barnamálaráðherra vonast til þess að breytingin komi til framkvæmda á næstu dögum. Brýnt sé að börn séu aðeins send þangað sem unnt er að tryggja þeim þar þá þjónustu sem þau eigi rétt á.
11.03.2020 - 22:23
Hælisleitendum fjölgar í ESB í fyrsta sinn frá 2015
Nær hálf milljón manna sótti um hæli í ríkjum Evrópusambandsins fyrstu níu mánuði þessa árs, heldur fleiri en á sama tímabili árið á undan. Er þetta í fyrsta sinn síðan 2015 sem hælisleitendum fjölgar í stað þess að fækka. Í Evrópusambandinu öllu sóttu 473.215 manns um hæli frá janúarbyrjun til septemberloka, í stað 435.610 á sama tímabili í fyrra. Þeim fjölgar því um 8,6 prósent milli ára.
Fjölmennustu móttökur flóttafólks hingað til
Ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum í seinustu viku tillögu flóttamannanefndar þess efnis að tekið yrði á móti 85 flóttamönnum í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Sjónarhóll barnsins í forgrunni HEIMA
Þreyta, hungur og kuldi er raunveruleiki fyrstu sólarhringa fylgdarlausra barna og ungmenna sem leita að alþjóðlegri vernd hér á landi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtölum UNICEF á Íslandi við 31 barn sem kom hingað til lands á árunum 2016 til 2018 í leit að alþjóðlegri vernd. Viðtölin voru tekin vegna verkefnisins HEIMA, þar sem UNICEF skoðar móttöku barna út frá sjónarhorni barnanna sjálfra. Rætt var við börn á aldrinum 7 til 18 ára, auk ungmenna á aldrinum 18 til 21 árs.
Kom á óvart að börn séu send til Grikklands
Það kom á óvart að íslensk stjórnvöld sendi börn sem óska hér eftir hæli, til Grikklands. Þetta segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Til stendur að senda tvær afganskar fjölskyldur, þar af fjögur börn, til Grikklands þar sem þau hafa fengið alþjóðlega vernd. Evrópuráðið og flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa bent á óviðunandi aðstæður flóttamanna í Grikklandi. Salvör hefur óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra og verður hann í þessari viku.
08.07.2019 - 08:14
Fréttaskýring
Feðginin í Rio Grande: Áhrif átakanlegra mynda
„Ef þessi mynd fær okkur ekki til að endurmeta stöðuna, ef hún hreyfir ekki við þeim sem taka ákvarðanirnar þá er samfélag okkar illa statt.“ Þetta segir Julia le Duc, blaðamaður á dagblaðinu La Jornada sem gefið er út í mexíkósku landamæraborginni Matamoros. Skammt frá borginni rennur stórfljótið Rio Grande og handan þess eru Bandaríkin. Á mánudagsmorgun tók Le Duc átakanlega mynd sem stór hluti þeirra sem fylgjast með heimspressunni hefur líklega séð. En breytir hún einhverju?