Færslur: Landhelgisgæslan

Myndband
Þyrlurnar komnar frá Skötufirði með fólkið
Öll þau sem voru í bílnum sem fór út af Djúpvegi í Skötufirði og hafnaði í sjónum í morgun eru komin á spítala í Reykjavík. Í bílnum var fjölskylda; maður, kona og lítið barn. Fjórir vegfarendur á þremur bílum náðu fólkinu úr bílnum og hófu björgunaraðgerðir áður en björgunarsveitir komu á vettvang.
16.01.2021 - 13:07
Útvarp
Björgun hafin í Skötufirði - fjölskylda var í bílnum
Bíll með þremur innanborðs, manni, konu og barni, fór í sjóinn í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum á ellefta tímanum í morgun. Slysið er alvarlegt og var Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð virkjuð. Þvær þyrlur Landhelgisgæslunnar fóru á staðinn. Vegfarendur tilkynntu um slysið og er sagt að þeir hafi unnið þrekvirki. Flughált er á vegum á Vestfjörðum. Búið er að ná fólkinu úr bílnum.
Þyrlan sótti slasaðan vélsleðamann á Trölla­skaga
Einn slasaðist á vélsleða ná­lægt Lág­heiði á Trölla­skaga skömmu eftir hádegi í dag. Ekki er vitað um tildrög slyssins né ástand hins slasaða að svo stöddu.
15.01.2021 - 15:51
Þyrla Gæslunnar sótti slasaða göngukonu
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til aðstoðar í Móskarðshnúka um klukkan tvö í dag vegna slasaðrar göngukonu sem þar var á ferð. Beiðni um aðstoð barst Gæslunni í gegnum Neyðarlínuna.
Stór og mikill fóðurprammi sökk á Reyðarfirði í nótt
Fóðurpramminn Muninn, sem er í eigu Laxa fiskeldis, sökk á Reyðarfirði á fjórða tímanum í nótt. Enginn var um borð í prammanum og ekki er talið að öðrum sæfarendum stafi hætta af honum þar sem hann liggur á hafsbotni á um 40 metra dýpi á móts við vitann Grímu á Berunesi, ekki langt frá landi. Varðskipið Þór er á vettvangi.
Myndskeið
Lagarfoss kominn til hafnar
Flutningaskipið Lagarfoss og áhöfn þess kom örugg til hafnar í Reykjavík í dag með aðstoð varðskipsins Þórs.
Þór og Lagarfoss komnir langleiðina til lands
Ferð varðskipsins Þórs með Lagarfoss, flutningaskip Eimskips, í togi hefur gengið mun betur en búist við og áætlað er að skipin verði komin til hafnar í Reykjavíkur upp úr klukkan 13 í dag, en áætlað var að þau kæmu á morgun. Lagarfoss varð vélarvana úti á rúmsjó, um 230 sjómílur suðvestur af Garðskaga um hádegisbil á sunnudaginn og viðgerðir um borð báru ekki árangur. Þór lagði af stað til aðstoðar þá um kvöldið.
30.12.2020 - 12:44
Þór og Lagarfoss á leið í land
Varðskipið Þór er nú komið með flutningaskip Eimskips, Lagarfoss, í tog áleiðis til Reykjavíkur. Lagarfoss varð aflvana úti á rúmsjó, um 230 sjómílur suðvestur af Garðskaga um hádegisbil í fyrradag, eftir að aðalvél þess bilaði á siglingu til Kanada. Viðgerðir um borð báru ekki árangur og var því kallað eftir aðstoð varðskipsins sem lagði af stað í fyrrakvöld. Engin hætta stafaði að skipverjum Lagarfoss.
29.12.2020 - 12:22
Þór sækir vélarvana Lagarfoss
Áhöfn varðskipsins Þórs var kölluð út í gærkvöld vegna Lagarfoss, flutningaskips Eimskips, sem varð vélarvana um 230 sjómílur suðvestur af Garðskaga í gær. Búast má við að Þór verði kominn að Lagarfossi í fyrramálið. Aðstæður á staðnum eru góðar og skipverjum er engin hætta búin.
28.12.2020 - 11:16
Gísli Jóns frá Ísafirði sendi einstaka jólakveðju
Áhöfnin á björgunarskipinu Gísla Jóns frá Ísafirði sendi Landhelgisgæslunni stórskemmtilega jólakveðju í kvöld. Þegar varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar skoðuðu feril Gísla Jóns frá Ísafirði blasti við þeim jólatré.
22.12.2020 - 22:12
Varðskipsmenn sóttu innilyksa fólk og ketti
Skipverjar af varðskipinu Tý sóttu í gærkvöld fólk sem hafði flúið skriðuföllin í Seyðisfirði að Hánefsstöðum, sem eru utar í firðinum, og orðið innilyksa þar. Fólkið hafði með sér tvo ketti í búri og voru menn og dýr sótt á léttabáti varðskipsins að Hánefsstöðum og farið með þau að höfn í Seyðisfirði.
20.12.2020 - 10:26
Þyrla Gæslunnar á leið austur
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRO, lagði af stað frá Reykjavík upp úr klukkan hálf tíu í morgun til Egilsstaða, þar sem hún verður til taks vegna aurskriðanna sem fallið hafa á Austfjörðum undanfarna daga.
20.12.2020 - 10:09
Lögðu fram drög að nýjum kjarasamningi
Samninganefnd flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni lagði fram drög að heildstæðum kjarasamningi á sáttafundi hjá ríkissáttasemjara í gær. Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélagsins, segir mikilvægt að semja og komast hjá því að kjaradeilan fari fyrir gerðardóm.
Segja þyrluleysið spila með líf sjómanna
Eina tiltæka þyrla Landhelgisgæslunnar bilaði í fyrradag og er engin þyrla Landhelgsigæslunnar útkallshæf. Sjómannafélögin hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna þyrluleysisins og segja það ámælisvert að spilað sé með líf og heilsu sjómanna. Þyrlurnar séu sjúkrabílar sjómanna, öryggistæki sem eigi alltaf að vera til staðar.
Myndskeið
Sjórinn þeyttist þrjátíu metra upp í loftið
Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar sprengdi í dag tundurskeyti sem kom í veiðarfæri togara frá Sandgerði í gær. Skeytið var sprengt á um 10 metra dýpi, hálfan annan kílómetra frá Sandgerðishöfn. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði var sprengingin ansi öflug, en samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni þeyttist sjórinn þrjátiu metra upp í loftið. Aðgerðin gekk mjög vel, samkvæmt upplýsingum frá gæslunni.
17.12.2020 - 15:00
Fresta sprengingu tundurskeytisins til morguns
Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar hefur ákveðið að fresta sprengingu tundurskeytis, sem kom í veiðarfæri togara úti fyrir Sandgerði, til morguns.
16.12.2020 - 22:01
Sprengja tundurskeyti úti fyrir Sandgerði
Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út nú í kvöld eftir að togari við Sandgerði fékk tundurskeyti í veiðarfæri skipsins. Í skeytinu eru um 300 kíló af sprengiefni og nú á næstu mínútum verður það dregið út á sjó og sprengt. Íbúar Sandgerðis gætu fundið fyrir hristingi. Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við fréttastofu. Mjög sjaldgæft sé að svo öflug tundurskeyti komi um borð í íslensk fiskiskip.
16.12.2020 - 20:50
TF-GRO bilaði og nú er engin þyrla tiltæk
Eina tiltæka þyrla Landhelgisgæslunnar bilaði í gær og þess vegna er engin þyrla útkallshæf. Beðið er eftir að varahlutur berist til landsins. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að bilunin í TF-GRO sé smávægileg og að þyrlan veðri komin í lag annað kvöld.
Myndskeið
Kominn í land eftir hálfa öld og tvö þorskastríð
Halldór Nellett skipherra sigldi varðskipinu Þór í höfn í síðasta sinn í morgun. Þar með lýkur nærri hálfrar aldar starfi hans hjá Landhelgisgæslunni. Hann segir vel heppnuð björgunarstörf standa upp úr, en líka tvö þorskastríð.
Fullt tungl og stórstreymt
Í dag er fullt tungl og því verður stórstreymt næstu daga. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að sjávarhæð verði meiri en sjávarfallaspár gefa til kynna vegna vind- og ölduáhlaðanda, fyrst sunnan- og vestanlands en svo um norðanvert landið eftir því sem líður á vikuna.
30.11.2020 - 13:09
Þyrla Gæslunnar er orðin útkallshæf á ný
Reglubundinni skoðun á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, lauk í kvöld. Flugvirkjar Landhelgisgæslunnar hafa unnið við skoðun vélarinnar um helgina og viðhaldsvinnunni lauk á níunda tímanum í kvöld.
TF-GRÓ fer ekki í loftið á morgun
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRÓ. verður ekki til reiðu á morgun eins og að hafði verið stefnt. Reglubundin skoðun á þyrlunni tekur lengri tíma en áætlað var og vonast er til þess að hún verði útkallsfær á mánudaginn.
„Það er sannarlega svartur föstudagur í dag“
Svartur föstudagur, öryggi landsmanna og verkfallsrétturinn var meðal þess sem kom fram í máli þingmanna þegar þeir gerðu grein fyrir atkvæðum sínum vegna frumvarps Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um lög þar sem bann er lagt við vinnustöðvun flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni.
Þór og Brimill komu flutningaskipi til aðstoðar
Eldur kom upp í flutningaskipi, sem var á siglingu miðja vegu milli Færeyja og Íslands á áttunda tímanum í kvöld. Sjö eru um borð í skipinu sem var á leið með laxeldisfóður frá Bretlandseyjum til Þingeyrar. Skipið er vélarvana eftir eldsvoðann. Uppfært kl. 23.30: Vélstjórum flutningaskipsins tókst að koma vélum þess í gang og siglir það fyrir eigin vélarafli í átt til Færeyja. Færeyska björgunarskipið Brimill siglir þó áfram til móts við það, en Þór hefur verið snúið aftur til Austfjarða.
27.11.2020 - 21:25
Alþingi samþykkir lög á verkfall flugvirkja Gæslunnar
Alþingi samþykkti nú á níunda tímanum lög á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp þessa efnis fyrr í dag.
27.11.2020 - 20:48